Skip to main content

Pistill forseta ASÍ

Launafólk á Íslandi er orðið langeygt eftir lagasetningu um févíti. Grunnhugmyndin er að þegar launafólk verður fyrir launaþjófnaði af hendi atvinnurekenda fái það bætur fyrir. Ekki að bæturnar renni í ríkissjóð eða eitthvert annað heldur að viðkomandi einstaklingur fái bæturnar.

Launafólk á Íslandi er orðið langeygt eftir lagasetningu um févíti. Grunnhugmyndin er að þegar launafólk verður fyrir launaþjófnaði af hendi atvinnurekenda fái það bætur fyrir. Ekki að bæturnar renni í ríkissjóð eða eitthvert annað heldur að viðkomandi einstaklingur fái bæturnar. Þetta þarf að gerast hratt og vera skilvirkt því það getur fylgt því mikill kostnaður að verða fyrir launaþjófnaði og enn meiri kostnaður ef bíða þarf lengi eftir upggjöri. Margir hafa orðið til þess að flækja málin út frá lagatæknilegum sjónarmiðum en ég minni á að löggjöfin á að þjóna okkur en ekki við henni. Ef við getum verið sammála um grunnhugsunina, sem erfitt er að sjá að heiðarlegt fólk geti verið ósammála, þá ættum við að geta smíðað löggjöf í kringum það.

Við höfum nú beðið í eitt og hálft ár eftir tillögum úr ráðuneytinu, verkalýðshreyfingin hefur sjálf lagt til útfærslu en enn bíðum við. Það gengur ekki lengur! Komum þessu frá þannig að hægt sé að einbeita sér að öðrum risa verkefnum. Þar ber hæst að verja heimili sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna Covid og aðstoða jaðarsetta hópa sérstaklega.

Þær voru erfiðar fréttirnar af hertu samkomubanni og munu þær vafalaust breyta vinnuumhverfi margra. Ég tek undir með yfirvöldum þegar ég hvet til samstöðu um hertar aðgerðir. Það er ekkert annað í stöðunni en að gera okkar allra besta til að sigrast á veirunni. Ef vinnustaðir gæta ekki nógu vel að sóttvörnum hvet ég launafólk til að hafa samband við sitt stéttarfélag eða Vinnueftirlitið. Við eigum öll að vera örugg í vinnunni. Að lokum sendi ég baráttukveðjur til framlínustarfsfólks. Störf ykkar eru ómetanleg á þessum erfiðu tímum.

Góða helgi,
Drífa