Skip to main content

Miðstjórn Alþýðusamband Íslands fagnar umræðu að undanförnu þar sem mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram undir yfirskriftinni #metoo og mótmælt kynferðislegu áreiti og ofbeldi í öllum myndum og á öllum sviðum samfélagsins. Þetta er svartur blettur á samfélaginu og enn eitt dæmið um kynbundna mismunun sem uppræta ber með öllum tiltækum ráðum.

Miðstjórn Alþýðusamband Íslands fagnar umræðu að undanförnu þar sem mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram undir yfirskriftinni #metoo og mótmælt kynferðislegu áreiti og ofbeldi í öllum myndum og á öllum sviðum samfélagsins. Þetta er svartur blettur á samfélaginu og enn eitt dæmið um kynbundna mismunun sem uppræta ber með öllum tiltækum ráðum.

Verkalýðshreyfingin hafnar allri mismunun og órétti á vinnumarkaði. Á því byggir sjálf tilvist hennar. Í því felst að verkalýðshreyfingin hafnar hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis, þ.m.t. kynbundnum launamun og einelti og kynferðislegu ofbeldi á vinnustað.

Barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks á fjölmörgum sviðum hefur skilað miklum árangri, m.a. í reglum um vinnuvernd, leiðbeiningum til trúnaðarmanna um meðferð slíkra mála o.fl. Þrátt fyrir það verður að viðurkenna að enn er langt í land. Það gildir um kynbundna mismunun á vinnumarkaði.

Miðstjórn hvetur aðildarsamtök Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfinguna alla til að styðja með öllum ráðum einstaklinga sem stíga fram og hafna hvers konar einelti og ofbeldi á vinnustað. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.