Skip to main content

Breski vinnudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu 28.október sl. að bifreiðastjórar sem óku undir merkjum Uber á Bretlandi, væru launamenn en ekki verktakar eða sjálfstætt starfandi.

Breski vinnudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu 28.október sl. að bifreiðastjórar sem óku undir merkjum Uber á Bretlandi, væru launamenn en ekki verktakar eða sjálfstætt starfandi.

Ný tækni og nýir möguleikar til þess að eiga samskipti skapa ýmsar áskoranir í vinnurétti m.a. um réttarstöðu einstaklinga í nýjum formum „ráðningarsambanda“. Þessi þróun endurspeglast m.a. í sífellt óskýrari mörkum milli hefðbundinna ráðningarsamninga, verktöku og sjálfstæðrar atvinnustarfsemi.

Það sem kallað er nýtt form vinnunnar er í sjálfu sér ekkert nýtt og staðreyndin er sú að herir lögfræðinga vinna hörðum höndum að því að gera mörk launavinnu og verktöku eins óskýr og hægt er og flytja þannig áhættu frá fyrirtækjum og fjármagnseigendum yfir á launafólk. Þetta „nýja“ er oftar en ekki hvernig, og stundum hvar, vinnan er framkvæmd. Gott dæmi um þetta er þróun þjónustu á sviði fólksflutninga í þéttbýli þar sem á grundvelli nýrrar tækni hefur orðið til ný þjónusta „sjálfstæðra“ bifreiðastjóra á eigin bifreiðum undir tilteknum vörumerkjum eins og t.d. Uber. Þrátt fyrir viðleitni Uber, sem eiganda tiltekins tölvuforrits fyrir snjallsíma og vörumerkis, til þess að skilgreina sig ekki sem atvinnurekanda og bifreiðastjóra sem kaupa sér aðgang að forritinu og vörumerkinu sem sjálfstætt starfandi verktaka, bendir réttarþróun til þess að hefðbundinn vinnuréttur eigi ekki í erfiðleikum með að taka utan um vandamálið og greina á milli raunverulegrar sjálfstæðrar atvinnustarfsemi og launaðrar vinnu eða ráðningarsambands.

Í október 2016 fjallaði breski vinnudómstóllinn um réttarstöðu bifreiðastjóra sem óku undir merkjum Uber í Bretlandi í málinu Aslam og Farrar gegn Uber B.V. o.fl. Nálgun dómstólsins að viðfangsefninu er hefðbundin hvað það varðar að skoða þætti eins og verkstjórnar- og boðvald, raunverulegt sjálfstæði, persónubundið vinnuframlag, viðurlög vegna frammistöðu o.fl. Niðurstaða dómstólsins er að Uber er atvinnurekandi og bifreiðastjórarnir launamenn í skilningi bresks, og raunar einnig evrópsks vinnuréttar. Breski dómstóllinn beitti svipaðri aðferðarfræði og notuð hefur verið hér á landi í málum um mörk launavinnu og verktöku en hvoru tveggja fylgir sömu réttarþróun og átt hefur sér stað innan Evrópudómstólsins.

Um aðgreiningu launamanna og verktaka er fjallað á vinnuréttarvef ASI.