Skip to main content

Á Norðurlöndunum greiðast barnabætur með öllum börnum, sama fjárhæð með hverju barni, óháð tekjum foreldranna. Markmið þeirra er að jafna fjárhagsstöðu fjölskyldna með og án barna og á milli æviskeiða. Á Íslandi hefur barnabótakerfið fremur einkenni fátæktarstyrks og það er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að ganga enn lengra í þeim efnum.

Á Norðurlöndunum greiðast barnabætur með öllum börnum, sama fjárhæð með hverju barni óháð tekjum foreldranna. Markmið þeirra er að jafna fjárhagsstöðu fjölskyldna með og án barna og á milli æviskeiða.
Á Íslandi hefur barnabótakerfið fremur einkenni fátæktarstyrks og það er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að ganga enn lengra í þeim efnum. Á sama tíma og fjármálaráðherra lýsir yfir áhyggjum af lækkandi fæðingartíðni dregur hann úr barnabótagreiðslum til launafólks, nema þeirra sem allra lægstar hafa tekjurnar.

Rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks 1998-2016 sýnir að skattbyrði hefur aukist umtalsvert, m.a. vegna lækkandi barnabóta sem rekja má til nokkurra þátta. Bótafjárhæðir hafa hvorki haldið í við þróun launa né verðlags, skerðingarhlutföll vegna tekna hafa aukist allra síðustu ár og frá og með tekjuárinu 2010 voru allar barnabætur tekjutengdar, líka fyrir 7 ára og yngri. Barnabætur taka mið af bæði fjölda barna og hjúskaparstöðu foreldra. Þannig aukast greiðslur með auknum fjölda barna ásamt því að einstæðir foreldrar eiga rétt á hærri barnabótum en hjón.

Í fréttinni á heimasíðu Alþýðusambands Íslands má sjá á mynd 1 sýnir hvernig barnabætur sem hlutfall af launum tekjulágra foreldra, með laun við neðri fjórðungsmörk, hafa lækkað á tímabilinu. Breytingin er mest hjá einstæðum foreldrum, en hlutfall barnabóta af launum þeirra fer úr um 20% árið 1998 niður í 9% 2016. Varðandi pörin verður að líta til þess að hlutfallið var mjög lágt hjá pörum í upphafi tímabilsins og ekki nema um 1% árið 2016. Því má segja að barnabætur séu eingöngu ætlaðar til stuðnings einstæðum foreldrum og allra tekjulægstu pörunum. Vegna þessa eru áhrif barnabóta á framfærslu para við neðri fjórðungsmörk launa hverfandi og stuðningur við börn einstæðra foreldra fer lækkandi.

Skattbyrði para með tvö börn á framfæri er því nánast sú sama og hjá barnlausum pörum með sömu laun eins og sjá má á mynd 2 í fréttinni á heimsíðu Alþýðusambands Íslands.

Í umræðu um lækkandi fæðingartíðni er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að á tímabilinu 1998-2016 hefur dregið úr skattaívilnunum til barnafólks í lægri tekjuhópunum og skattbyrði þessara barnafjölskyldna hefur því aukist umfram annarra.