Skip to main content

Stjórn og trúnaðarmannaráð Verslunarmannafélags Skagafjarðar hefur ákveðið að viðhafa rafræna allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboðun félagsmanna. Atkvæðagreiðslan hefst kl. 09:00 þann 12.maí og lýkur kl. 12:00 þann 19. maí. Allir kosningabærir félagsmenn fá send kjörgögn í pósti á næstu dögum.

Stjórn og trúnaðarmannaráð Verslunarmannafélags Skagafjarðar hefur ákveðið að viðhafa rafræna allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboðun félagsmanna. Atkvæðagreiðslan hefst kl. 09:00 þann 12.maí og lýkur kl. 12:00 þann 19. maí næstkomandi. Allir kosningabærir félagsmenn fá send kjörgögn í pósti á næstu dögum.

 

VR, Landssamband ísl. verzlunarmanna og Flóabandalagið hafa sent frá sér sameiginlega fréttatilkynningu til að kynna atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun og skipulag verkfallsaðgerða. Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

__________

Félagsmenn í VR, aðildarfélögum Landssambands ísl. verzlunarmanna og Flóabandalagsins, þ.e. Eflingar, Hlífar og VSFK, hafa verið samningslausir í tvo mánuði með tilheyrandi skaða og enn hillir ekki undir nýjan kjarasamning. Félögin hafa undanfarna mánuði reynt að ná sátt við atvinnurekendur um grundvöll nýrra kjarasamninga en árangurinn hefur verið rýr. Öll stéttarfélögin vísuðu deilum sínum til ríkissáttasemjara þann 17. apríl síðastliðinn. Þrátt fyrir milligöngu hans hafa viðræður reynst árangurslausar og var þeim öllum slitið undir lok apríl. Á grundvelli 15. gr. laga nr. 80 frá 1938 boða félögin nú til atkvæðagreiðslu um verkföll á félagssvæðum sínum. Atkvæðagreiðslunni lýkur eigi síðar en 20. maí. Verði verkföll samþykkt hefjast aðgerðir fimmtudaginn 28. maí. 

Af hverju verkföll?

Ákvörðun um vinnustöðvun er ekki auðveld og er verkfallsvopninu aldrei beitt nema í ítrustu neyð. En viðbrögð atvinnurekenda gagnvart sanngjörnum kröfum okkar eru slík að við eigum engra annarra kosta völ. Atvinnurekendur hafa ekki sýnt vilja til að koma viðræðum í þann farveg að þær skili árangri. Þær aðgerðir sem við greiðum nú atkvæði um eru þannig eina leið okkar til að knýja á um breytingar. 

Stöndum saman

Sameiginlega hafa þessi félög sterkan málstað. Það er mat félaganna að stuðningur við fyrirhugaðar aðgerðir sé víðtækur og almennur meðal félagsmanna. Markmið okkar er ekki að valda tjóni, heldur leggja áherslu á þær kröfur að jafnræði ríki meðal launafólks í íslensku samfélagi.

Á síðustu misserum hafa ríki og sveitarfélög markað nýja stefnu í kjaramálum sem veldur því að ójöfnuður hefur aukist. Þessi stefna hefur valdið misvægi í kaupmætti hópa launafólks. Við þetta verður ekki unað. 

Krafa okkar sem hér kynnum sameiginlega aðgerðir á vinnumarkaði er einföld; að kjör félagsmanna okkar verði leiðrétt. Við lögðum okkar af mörkum við gerð síðustu kjarasamninga og sýndum ábyrgð. Við öxlum hins vegar ekki ein ábyrgð á stöðugleika á vinnumarkaði. Það dugar skammt að lýsa yfir góðæri, ef ávinningar stöðugleika eiga einungis að falla í skaut atvinnurekenda en launafólki verði einungis skammtaðar lágmarkshækkanir.

Skipulag verkfalla

Skipulag vinnustöðvana félaganna er með þeim hætti að dagana 28. maí til og með 5. júní verða tveggja daga verkföll í tilteknum atvinnugreinum á félagasvæði VR, LÍV og aðildarfélaga Flóans. Frá og með 6. júní hefst ótímabundið allsherjarverkfall.

Hér að neðan er birt yfirlit yfir skipulag aðgerðanna.

Hvenær ?                                        Hvar ? 
28. maí og 29. maí                          Hópbifreiðafyrirtæki
                                                        frá kl. 00:00 28. maí til kl. 24:00 29. maí 

30. maí og 31. maí                          Hótel, gististaðir og baðstaðir
                                                        frá kl. 00:00 30. maí til kl. 24:00 31. maí
 
31. maí og 1. júní                            Flugafgreiðsla
                                                        frá kl. 00:00 31. maí til kl. 24:00 1. júní
 
2. júní og 3. júní                              Skipafélög og matvöruverslanir
                                                        frá kl. 00:00 2. júní til kl. 24:00 3. júní
 
4. júní og 5. júní                              Olíufélög
                                                        frá kl. 00:00 4. júní til kl. 24:00 5. júní
 
Ótímabundið allsherjarverkfall hefst kl. 00:00 þann 6. júní 2015 

 

Við leggjum nú næstu skref í hendur félagsmanna okkar.

Við hvetjum þá til að nýta atkvæðisrétt sinn. Við hvetjum einnig okkar fólk til að standa saman og greiða atkvæði með þessum aðgerðum.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR
Guðbrandur Einarsson, formaður LÍV
Sigurður Bessason, formaður Eflingar, f.h. samninganefndar