Skip to main content

Gífuryrði án innistæðu

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) sendu frá sér fréttatilkynningu í dag, 29. september, vegna verðkönnunar sem verðlagseftirlit ASÍ sendi frá sér í gær. Í fréttatilkynningunni ber SVÞ verðlagseftirlitið þungum sökum.

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) sendu frá sér fréttatilkynningu í dag, 29. september, vegna verðkönnunar sem verðlagseftirlit ASÍ sendi frá sér í gær.
Í fréttatilkynningunni ber SVÞ verðlagseftirlitið þungum sökum. Verðlagseftirlitið er sagt hafa orðið uppvíst að vinnubrögðum sem vart geti talist boðleg og að á meðan verðlagseftirlitið haldi áfram að stunda slík vinnubrögð haldi trúverðugleiki þess áfram að minnka. Þetta eru alvarlegar ásakanir, sérstaklega í ljósi þess að SVÞ gerir engar efnislegar athugasemdir við gerð, framkvæmd, úrvinnslu eða niðurstöður verðkönnunarinnar.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem SVÞ slær um sig með gífuryrðum í gagnrýni sinni á verðlagseftirlit ASÍ. SVÞ virðist telja að með því að nota nógu stór orð nógu oft geti samtökin grafið undan trúverðugleika verðlagseftirlits ASÍ.
Verðlagseftirlit ASÍ kappkostar að ástunda fagleg vinnubrögð og hefur einungis það markmið að veita verslunum aðhald með því að upplýsa neytendur um verðlag og þróun verðlags. Verðlagseftirlit ASÍ hefur engra annarra hagsmuna að gæta ólíkt SVÞ sem virðist telja það þjóna hagsmunum þeirra verslana sem samtökin starfa fyrir að draga úr því aðhaldi sem verðlagseftirlitið veitir með innihaldslausum gífuryrðum.