Skip to main content

Í umsögn ASÍ um reglugerð um tilvísanir fyrir börn segir að heilsugæslan sé ekki í stakk búin að sinna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, sem er forsenda fyrir því að börn komist gjaldfrítt til sérfræðilækna. Þá varar ASÍ við því að aukinn kostnaður geti fallið á sjúklinga í nýju kerfi um kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Slíkt skapi mismunun og hindri tekjulágar fjölskyldur í því að nýta sér þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Í umsögn ASÍ um reglugerð um tilvísanir fyrir börn segir að heilsugæslan sé ekki í stakk búin að sinna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, sem er forsenda fyrir því að börn komist gjaldfrítt til sérfræðilækna. Þá varar ASÍ við því að aukinn kostnaður geti fallið á sjúklinga í nýju kerfi um kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Slíkt skapi mismunun og hindri tekjulágar fjölskyldur í því að nýta sér þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Með breytingu á lögum um sjúkratryggingar í vor er gert ráð fyrir heimild til þjónustustýringar með því að heimila að gjald fyrir ákveðna þætti heilbrigðisþjónustunnar (sérfræðilækna, rannsóknir og myndgreiningar) verði hærra, ef sjúklingur sækir þjónustu án tilvísunar frá heilsugæslulækni. Alþýðusambandið telur slíka breytingu almennt skynsamlega, að því gefnu að heilsugæslan sé í stakk búin til að sinna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Slíkt er ekki raunin í dag og til að svo geti orðið er nauðsynlegt að byrja á að styrkja rekstargrundvöll heilsugæslunnar. Einungs er gert ráð fyrir að nýta þessa heimild gagnvart börnum þar sem sérfræðilæknisþjónusta, rannsóknir og myndgreiningar verða gjaldfrjáls ef tilvísun liggur fyrir frá heilsugæslu en að öðrum kosti greiða börn talsvert hærra gjald fyrir þessa þjónustu en verið hefur. Brýnt er að aðgengi og biðtími eftir þjónustu heilsugæslulækna verði ekki flöskuháls og skapi ekki mismun í aðgengi barna að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu.

Líkt og Alþýðusambandið hefur ítrekað bent á hefur kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu nær tvöfaldast á síðustu 30 árum og í dag standa heimilin undir tæplega fimmtungi allra heilbrigðisútgjalda með beinni greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu.

Í þeim drögum sem nú liggja fyrir að nýrri reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu er gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla almennra notenda verði 69.700 krónur á ári og gjaldtaka fyrir ákveðna þætti aukist til muna.

Alþýðusambandið áréttar fyrri áherslur sínar um nauðsyn þess að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni og að staðið verði við fyrirheit um að hámarksgreiðsla almennra notenda verði ekki hærri en 50.000 krónur á ári.

Miðað við fyrirliggjandi drög mun kostnaður þeirra sem þurfa tilfallandi þjónustu hjá sérfræðilæknum, í myndgreiningum og rannsóknum í ákveðnum tilvikum hækka til mikilla muna um áramót, einkum hjá öryrkjum og eldri borgurum, sem kann að koma illa niður á tekjulágum hópum og þeim sem hafa heilbrigðiskostnað á öðrum sviðum sem nýtt greiðsluþátttökukerfið nær ekki yfir. Kostnaður þessa hóps kann því í reynd að aukast við breytinguna. Því er nauðsynlegt að í fjárlögum verði tryggðir auknir fjármunir til Sjúkratrygginga svo draga megi enn frekar úr kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustunni en gert er ráð fyrir skv. reglugerðardrögunum.

 

Umsögn ASÍ um drög að reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og drög að reglugerð um tilvísanir fyrir börn.