Skip to main content

Undanfarna mánuði hefur mikil óvissa ríkt um framtíð flugfélagsins Wow, félags sem fengið hefur að vaxa óheft og á hraða sem virðist á engan hátt hafa verið sjálfbær. Þetta er ástand sem minnir óþægilega á óheftan vöxt bankanna í aðdraganda efnahagshrunsins fyrir áratug.

Undanfarna mánuði hefur mikil óvissa ríkt um framtíð flugfélagsins Wow, félags sem fengið hefur að vaxa óheft og á hraða sem virðist á engan hátt hafa verið sjálfbær. Þetta er ástand sem minnir óþægilega á óheftan vöxt bankanna í aðdraganda efnahagshrunsins fyrir áratug.

Stærð og áhrif Wow á efnahagskerfi landsins eru gríðarleg og afleiðingarnar af hugsanlegu þroti fyrirtækisins yrðu alvarlegar. Verðbólguskot, atvinnuleysi og samdráttur sem bitnar verst á venjulegu launafólki. Mörg þúsund starfsmenn og fjöldi fyrirtækja eiga sitt undir því að loftbrúin til landsins laskist ekki.

Vegna óvissu um framtíð Wow var 237 starfsmönnum sagt upp í gær og fimmtán til viðbótar í dag hjá fyrirtækjum á Keflavíkurflugvelli. Þetta eru mestu fjöldauppsagnir síðan bandaríski herinn hvarf á braut 2006. Þetta er gríðarlegt högg fyrir það svæði á landinu þar sem atvinnuleysi hefur verið mest í gegnum tíðina. Fjöldi fjölskyldna er í mikilli óvissu í aðdraganda jóla.

Miðstjórn ASÍ skorar á ríkisstjórnina að standa með almenningi og setja þak á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar til að forða heimilum þess lands frá því að þurfa að taka höggið af þeirri efnahagslegu óvissu sem nú ríkir í flugrekstri hér á landi. Sporin frá bankahruninu hræða.