Skip to main content
VMF

Ályktun miðstjórnar ASÍ

By maí 6, 2022No Comments

Miðstjórn gagnrýnir aðgerðaleysi stjórnvalda harðlega

Miðstjórn Alþýðusambandsins kallar eftir tafarlausum aðgerðum til að bregðast við hratt vaxandi verðbólgu og óásættanlegri stöðu á húsnæðismarkaði. Sú kjararýrnun sem almenningur verður fyrir þessa dagana vegna verðbólgu og hækkandi vöru- og húsnæðisverði mun hafa veruleg áhrif á kjaraviðræður komandi hausts.

Verðbólga mælist 7,2% um þessar mundir og hefur ekki verið hærri frá fjármálahruni. Helsti drifkraftur verðbólgu hefur til þessa verið hækkun á húsnæðisverði. Seðlabankinn hefur kosið að bregðast við ástandinu með verulegri hækkun vaxta frekar en að beita þjóðhagsvarúðartækjum til að kæla húsnæðismarkað. Hækkun vaxta mun hafa veruleg íþyngjandi áhrif, sérstaklega á þau heimili sem hafa nýlega keypt fasteign. Hækkunin getur jafnframt orðið til þess að setja frekari þrýsting á hækkun verðlags með hærri vaxtakostnaði fyrirtækja.

Til viðbótar við þróun á húsnæðismarkaði dynja nú yfir almenning gríðarlegar hækkanir sem rekja má til stríðsátaka og þróunar á hrávöruverði, flutningskostnaði og vaxandi framleiðslukostnaði erlendis. Þessi þróun hefur ekki verið óvænt og  henni er ekki lokið. Fákeppni á mörgum mörkuðum verður til þess að kostnaðarhækkanir rata beint í verðlag í stað þess að haldið sé aftur af arðgreiðslum. Stjórnvöld hér hafa hundsað viðvörunarorð um væntar verðhækkanir og brugðist of seint við stöðunni sem nú er uppi á húsnæðismarkaði.

Miðstjórn Alþýðusambandsins telur með öllu óásættanlegt að almenningur og launafólk í landinu greiði alfarið  fyrir hagstjórnarmistök á húsnæðismarkaði og innflutta verðbólgu. Alþjóðastofnanir hafa hvatt ríki til að bregðast við með lækkun álaga á matvöruverð, mótframlögum vegna samgöngukostnaðar og húshitunarkostnaðar svo eitthvað sé nefnt. Stjórnvöld hér á landi geta ekki lengur skilað auðu og látið almenning taka höggið. Það mun hafa verulegar afleiðingar á kjarasamninga í haust ef ekki verður brugðist við fumlaust til hagsbóta fyrir almenning.

Miðstjórn ASÍ kallar eftir tafarlausum aðgerðum af hálfu stjórnvalda og beinir því til fyrirtækja að sýna samfélagslega ábyrgð við verðlagningu:

Stjórnvöld axli ábyrgð og taki frumkvæði í að byggja upp sátt og stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika.
Tilfærslukerfin verði efld til að draga úr áhrifum af hækkunum vaxta, hrávöruverðs og hækkunum verðlags.
Leita verði leiða til að draga úr áhrifum af hækkun hrávöruverðs á eldsneytis- og matarverð.
Skattkerfinu verði beitt til raunverulegrar jöfnunar í samfélaginu. Hvalrekaskattur lagður á þær greinar sem hagnast á óvenjulegum aðstæðum og njóta óeðlilegs arðs.

Lífeyrissjóðir beiti eignarhaldi sínu til að tryggja að almenningur verði ekki fyrir íþyngjandi kostnaðarhækkunum.