Skip to main content

Þrátt fyrir að lögregluembætti víðast hvar á landinu hafi gefið það út að það verði ekki sektað fyrir notkun á nagladekkjum í apríl styttist í að allir þurfi að vera komnir af nagladekkjum.

Þrátt fyrir að lögregluembætti víðast hvar á landinu hafi gefið það út að það verði ekki sektað fyrir notkun á nagladekkjum í apríl styttist í að allir þurfi að vera komnir af nagladekkjum. Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á dekkjaskiptum, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 48 fyrirtækjum víðsvegar um landið sem bjóða upp á hjólbarðaþjónustu.

Yfir 100% munur var á hæsta og lægsta verði á þjónustunni fyrir allar stærðir bíla í verðkönnun ASÍ sem fór fram þann 20. apríl. Mesti munur á hæsta og lægsta verði var á þjónustu fyrir jepplinga á 16" ál- eða stálfelgum 159%. Minnsti munur var á þjónustunni fyrir smábíla á 14" dekkjum á ál- eða stálfelgum, 109%. Aðalbílar í Reykjavík var með lægsta verðið fyrir allar gerðir bíla (á ál- og stálfelgum) nema jeppa. Bifreiðaverkstæðið Stormur Patreksfirði var með lægsta verðið á þjónustunni fyrir jeppa á 18" dekkjum (á ál- og stálfelgum)  og næst lægsta verðið fyrir aðrar tegundir af bílum.

Eftirfarandi þjónustuaðilar vildu ekki upplýsa verðlagseftirlitið um verð á þjónustunni: Hjólbarðaþjónustan Framnesvegi Reykjanesbæ, Höldur bílaverkstæði Akureyri, Hjólbarðaverkstæði Magnúsar Selfossi, Hjólbarðaverkstæði Óskars Sauðárkróki og Dekkjahöllin og B.V.A. Egilstöðum.

9.510 kr. munur á hæsta og lægsta verði fyrir jepplinga
Mestur hlutfallslegur munur var á hæsta og lægsta verði fyrir dekkjaskipti, umfelgun og jafnvægisstillingu á jepplingum á 16" dekkjum með ál- og stálfelgum, 159% eða 9.510 kr. Hæst var verðið hjá Réttingaverkstæði Sveins, 15.500 en lægst hjá Aðalbílum Reykjavík, 5.990 kr. Í krónum talið var munur á hæsta og lægsta verði mestur á þjónustunni fyrir jeppa á 18" dekkjum á ál- og stálfelgum, 11.740 kr. eða 143%. Hæst var verðið hjá Dekkjahöllinni, 19.940 kr. en lægst hjá Bifreiðaverkstæðinu Stormi, 8.200 kr.

109% eða 6.510 kr. munur var á hæsta og lægsta verði fyrir sömu þjónustu fyrir smábíla á 14" dekkjum (ál- og stálfelgur), 114% eða 6.810 kr. munur var á hæsta og lægsta verði fyrir minni meðalbíla á 15" dekkjum (ál- og stálfelgur) og 143% eða 8.591 kr. munur var á hæsta og lægsta verði fyrir meðalbíla á 16" dekkjum (ál- og stálfelgur).

Skoða má verð fyrir mismunandi bílategundir í töflu á heimasíðu ASÍ. Með því að ýta á „Álfelgur“ eða „Stálfelgur“ raðast verkstæðin eftir hæsta og lægsta verði. Einnig má finna töflu yfir afslætti hjá fyrirtækjunum í flettilistanum. Neðar í fréttinni má sjá samanburð á verði á þjónustunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lægsta verðið á landinu fyrir allar stærðir af bifreiðum nema jeppa hjá Aðalbílum Reykjavík en Bifreiðaverkstæðið Stormur með lægsta verðið fyrir jeppa og næst lægsta fyrir aðra bíla
Lægsta verðið fyrir dekkjaskipti, umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir smábíla, minni meðalbíla, meðalbíla og jepplinga á ál- og stálfelgum var hjá Aðalbílum Reykjavík, 5.990 kr. Næst lægsta verðið fyrir sömu tegundir af bifreiðum var hjá Bifreiðaverkstæðinu Stormi Patreksfirði, 7.200 kr. Bifreiðaverkstæði S.B. á Ísafirði var með þriðja lægsta verðið fyrir á jepplinga (ál og stál), 8.900 kr. Bifreiðaverkstæðið Stormur var með lægsta verðið á þjónustunni fyrir jeppa (ál- og stálfelgur), 8.200 kr. en næst lægsta verðið var hjá Aðalbílum, 8.990 kr.

Réttingaverkstæði Sveins Neskaupsstað var með hæsta verðið fyrir dekkjaskipti, umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir smábíl (14" ál og stál), 12.500 kr. Næst hæsta verðið fyrir sömu gerð af bíl á álfelgum var 12.000 kr. hjá Vatnajökull Travel á Höfn í Hornafirði en fyrir smábíl á 14" stálfelgum Arctic Trucks, 11.500 kr.

Hæsta verðið fyrir minni meðalbíla (15") (ál- og stálfelgur) var hjá Arctic Trucks, 12.800 kr. en það næst hæsta hjá Réttingaverkstæði Sveins, 12.500 kr. Arctic Trucks var einnig með hæsta verðið á þjónustunni fyrir meðalbíla (16") (ál- og stálfelgur), 12.800 kr. en Dekkjahöllin það næst hæsta, 12.590 kr.

Þjónustan fyrir jepplinga á 16" dekkjum var dýrust hjá Réttingaverkstæði Sveins, 15.500 kr. og næst dýrust hjá Dekkjahöllinni, 14.690 kr. Dekkjahöllin var með hæsta verðið á þjónustunni fyrir jeppa á 18" dekkjum (ál- og stálfelgur), 19.940 kr. en næsthæst var verðið hjá Max 1, 18.316 kr.

Í myndriti sem finna má á heimasíðu ASÍ má sjá verð fyrir þjónustuna hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Notið fellilistann til að skoða mismunandi tegundir bíla og stærðir felgna.

Costco býður upp á dekkjaskipti fyrir allar þessar tegundir og stærðir bíla fyrir 4.400 kr. sem er lægra en hjá öðrum verkstæðum. Það er þó ekki að fullu sambærilegt þar sem viðkomandi þarf að vera á bíl á dekkjum frá Costco ásamt því að hafa Costco kort sem þarf að greiða fyrir.

Hér má sjá þær tegundir bíla og stærð felgna og hjólbarða sem könnunin náði til. Flest verkstæði verðleggja þjónustuna þó einungis eftir felgustærð og gerð felgna (ál eða stál).

Smábíll d. Toyota Yaris Terra. Felgustærð (R) 14", breidd hjólbarða(P): 175, hæð/prófíll (H): 65
Minni meðalbíll d. Ford Focus Trend, felgustærð (R) 15", breidd hjólbarða(P): 195, hæð/prófíll (H): 65
Meðalbíll d. Subaru Legacy Station, felgustærð (R) 16", breidd hjólbarða(P): 205, hæð/prófíll (H): 55
205/55R16
Jepplingur d. Toyota Rav, felgustærð (R) 16", breidd hjólbarða(P): 225, hæð/prófíll (H): 70
Jeppar d. Land Cruiser, Mitsubishi Pajero Instyle, felgustærð (R) 18", breidd hjólbarða(P): 265, hæð/prófíll (H): 60
 

Um könnunina
Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14",15", 16" og 18" á eftirfarandi stöðum: Höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Húsavík, Kópaskeri, Akranesi, Borgarnesi, Stykkishólmi, Grundarfirði, Ólafsvík, Ísafirði, Bolungarvík, Patreksfirði, Reykjanesbæ, Selfossi, Egilsstöðum, Neskaupsstað, Höfn í Hornafirði og Sauðárkróki. Verðið í könnuninni er án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afslætti t.d. fyrir félaga FÍB og eldri borgara og eru viðskiptavinir því hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.