Skip to main content

Forseti Íslands hefur vísað lögum um staðfestingu á samningi Íslands, Bretlands og Hollands til lausnar á Icesave deilunni til þjóðarinnar. Íslenskt launafólk stendur því frammi fyrir að taka afstöðu í almennri og lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu milli tveggja kosta: hvort farin verði leið samninga eða leið langvinnra málaferla til lausnar á þessu erfiða deilumáli þessara þjóða. Aðrir kostir eru ekki í boði. Þetta kemur fram á vef ASÍ.

Forseti Íslands hefur vísað lögum um staðfestingu á samningi Íslands, Bretlands og Hollands til lausnar á Icesave deilunni til þjóðarinnar. Íslenskt launafólk stendur því frammi fyrir að taka afstöðu í almennri og lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu milli tveggja kosta: hvort farin verði leið samninga eða leið langvinnra málaferla til lausnar á þessu erfiða deilumáli þessara þjóða. Aðrir kostir eru ekki í boði.

Hin fyrri, leið samninga, byggir á sameiginlegu mati aukins meirihluta Alþingis, stjórnar og stjórnarandstöðu, og þeirra 9 þingmanna af 11 í fjárlaganefnd sem besta og gleggsta yfirsýn hafa á málið. Hin síðari leið byggir á rökum þeirra sem telja affærasælast fyrir Ísland að EFTA dómstóllinn og í framhaldi af því íslenska dómskerfið eigi síðasta orðið. EFTA dómstólnum ber að byggja niðurstöður sínar á þeim tilskipunum og reglum Evrópusambandsins og túlkunum Evrópudómstólsins sem gildi hafa á Evrópska efnahagssvæðinu.

Alþýðusamband Íslands hefur allt frá hruni lagt á það megináherslu að byggja upp að nýju íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Það er eina færa leiðin til þess að vinna til baka þau störf sem tapast hafa á liðnum árum, vinna til baka þann kaupmátt sem almennt launafólk hefur misst og endurheimta þannig fyrri lífskjör. ASÍ hefur því á undanförnum árum lagt mikla áherslu á víðtækt samstarf og samráð aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að draga úr óvissu, koma á umhverfi meiri stöðugleika í gengis- og verðlagsmálum, gera kjarasamninga um aukinn kaupmátt og jöfnun kjara, auka fjárfestingar og byggja upp atvinnulífið samhliða því að standa vörð um viðkvæmustu þætti velferðarkerfisins.

Gerð kjarasamninga til næstu þriggja ára skiptir þar miklu með því að draga úr óvissu og sameinast um leiðirnar. Þrátt fyrir að niðurstaða þjóðaatkvæðagreiðslunnar geti haft afgerandi áhrif á forsendur slíks kjarasamnings, telur miðstjórn ASÍ mikilvægt að vinnu við gerð kjarasamninga verði haldið áfram á grundvelli þess samkomulags, sem gert var við Samtök atvinnulífsins 11. febrúar s.l. um að miða við gerð samnings til 3 ára. Í því samkomulagi var gert ráð fyrir því, að takist ekki að sameinast um forsendur slíks samnings með stjórnvöldum og Alþingi, breytist hann í skammtímasamning.

Það má ljóst vera að það skiptir allt launafólk miklu máli hvor leiðin verður ofaná við lausn Icesave deilunnar. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mun því hvetja alla félagsmenn sína til að taka þátt í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt telur miðstjórn ASÍ það vera hlutverk Alþýðusambandsins að leitast við að upplýsa félagsmenn sína sem allra best í aðdraganda hennar um kosti og galla þeirra valkosta sem eru í boði.