Skip to main content

Pistill forseta ASÍ

Það hafa verið teknar afdrifaríkar ákvarðanir á skömmum tíma síðustu mánuði, ákvarðanir sem var ætlað að tryggja lífskjör og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja. Það var alveg ljóst að í þeirri vegferð yrðu gerð mistök en nú erum við á stað þar sem mistökunum á að fækka.

Það hafa verið teknar afdrifaríkar ákvarðanir á skömmum tíma síðustu mánuði, ákvarðanir sem var ætlað að tryggja lífskjör og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja. Það var alveg ljóst að í þeirri vegferð yrðu gerð mistök en nú erum við á stað þar sem mistökunum á að fækka. Við höfum betri upplýsingar um stöðu mála og getum vandað okkur.

Tvö stórmál liggja nú fyrir Alþingi og verða hugsanlega afgreidd í dag. Annars vegar lög um framlengingu hlutabótaleiðarinnar og hins vegar greiðslu hluta launa á uppsagnarfresti. Það hefur komið mörgum á óvart að verkalýðshreyfingin hefur stutt þá hugmynd að skattfé okkar fari í greiðslu launa á uppsagnarfresti en forsendur þess eru að ellegar færu þessi fyrirtæki í þrot, starfsfólk væri verr sett en áður (nú fær starfsfólk uppsagnarfrestinn greiddan áður en það þarf hugsanlega að leita í atvinnuleysistryggingar) og gjaldþrota fyrirtæki færu á brunaútsölu með tilheyrandi tapi verðmæta. Þessi stuðningur hreyfingarinnar er þó ekki skilyrðislaus. Fyrir utan þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla og mikið hafa verið til umfjöllunar þá er það líka skilyrði af okkar hálfu að þegar fyrirtækin taka við sér, verði fólk endurráðið samkvæmt starfsaldursröð á sömu kjörum og það var á. Við höfum líka lagt áherslu á að fólk hafi tækifæri til endurmenntunar á uppsagnarfresti.

Ekkert þessara atriða hefur ratað inn í frumvarpið í meðförum þingsins á þessum tímapunkti. Því er ljóst að fyrirtæki geta sagt fólki upp og endurráðið á lakari kjörum og sleppt því að endurráða starfsfólk sem hefur áunnið sér starfsaldurstengd réttindi. Ef frumvarpið nær fram að ganga í þessari mynd gæti það leitt til mestu kjaraskerðingar síðari tíma með stuðningi löggjafans. Við höfum sent þingmönnum bréf með ítrekuðum kröfum og átt milliliðalaust samtal við þingmenn í dag. Ég ætlast til þess af þingmönnum og öllum þeim sem geta látið rödd sína heyrast að þau tryggi að þetta stórslys verði ekki að veruleika.

Drífa Snædal