Skip to main content

Ætla má að tjón samfélagsins vegna kennitöluflakks hlaupi á milljörðum króna á hverju ári. Kennitöluflakk er meinsemd í íslensku samfélagi sem er hægt að lágmarka með breytingu laga í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Ætla má að tjón samfélagsins vegna kennitöluflakks hlaupi á milljörðum króna á hverju ári. Kennitöluflakk er meinsemd í íslensku samfélagi sem er hægt að lágmarka með breytingu laga í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Kennitöluflakk felur í sér að félag hættir starfsemi eftir gjaldþrot en rekstur þess heldur áfram í gegnum annað félag með nýrri kennitölu til að komast undan einhverjum eða öllum lagalegum skuldbindingum félagsins, s.s. greiðslu skatta og opinberra gjalda, lífeyris- og launagreiðslum.

Ákjósanlegt er að hafa rekstrarumhverfi þar sem er auðvelt og kostnaðarlítið  að hefja rekstur, svigrúm er til hóflegrar áhættutöku og sanngjarnar leikreglur eru til staðar sem veita vernd gegn misnotkun eins og kennitöluflakki. Ísland er eftirbátur nágrannaþjóðanna þegar kemur að úrræðum til að sporna við kennitöluflakki. Svíar lögfestu atvinnurekstrarbannheimild árið 1980, Norðmenn 1984, Bretar 1986 og Danir 2014.

SA og ASÍ leggja til að hægt verði að banna þeim sem verða uppvísir að kennitöluflakki að eiga og reka hlutafélög og einkahlutafélög í allt að þrjú ár. Lagt er til að Ríkisskattstjóra verði veitt heimild til að úrskurða kennitöluflakkara í svokallað atvinnurekstrarbann að fengnum úrskurði dómstóla. Bannið myndi ekki einungis ná til skráðra stjórnenda heldur einnig til svokallaðra skuggastjórnanda. Skilyrði atvinnurekstrarbanns eru óverjandi viðskiptahættir eða rökstuddur grunur um refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur.

Það er til mikils að vinna en það liggur fyrir að fjárfesting í baráttu gegn kennitöluflakki skilar sér margalt til baka. Tjónið lendir á fyrirtækjum, ríkissjóði, stéttarfélögum, lífeyrissjóðum, launafólki og neytendum. Nýleg dæmi frá Ástralíu sýna að rúmlega helmingur tjónþola kennitöluflakks eru fyrirtæki sem eiga í viðskiptum við kennitöluflakkara. Ríkissjóður ber rúmlega þriðjung tjónsins en starfsmenn rúmlega 10%.

Mikilvægt er að gera greinarmun á kennitöluflakki og hefðbundnum gjaldþrotum fyrirtækja sem eiga sér eðlilegar skýringar og þar sem vilji er til að standa við lagalegar skuldbindingar eins og hægt er. Kennitöluflakk felur hins vegar í sér glæpsamlega starfsemi þar sem markmiðið er að koma undan fjármunum.