Skip to main content

Nýbirt könnun Varasjóðs húsnæðismála á stöðu leiguíbúða sveitarfélaga á landinu sýnir vel þörfina á verulegu átaki í uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Alþýðusambandið hefur undanfarið ítrekað bent á að stór hópar í samfélaginu eru utanveltu á húsnæðismarkaði og búa við mikið óöryggi í húsnæðismálum.

Nýbirt könnun Varasjóðs húsnæðismála á stöðu leiguíbúða sveitarfélaga á landinu sýnir vel þörfina á verulegu átaki í uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Umsóknum fer fjölgandi, biðlistar eru langir og biðtími í mörgum tilvikum langur, einkum í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem um 80% þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð búa. Alþýðusambandið hefur undanfarið ítrekað bent á að stór hópar í samfélaginu eru utanveltu á húsnæðismarkaði og búa við mikið óöryggi í húsnæðismálum. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þessu fólki húsnæðisöryggi á viðráðanlegum kjörum.

Félagslegar leiguíbúðir eru ríflega 4.900 á landinu öllu, þar af eru ríflega 2.200 í Reykjavík og ríflega 700 til viðbótar í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögum á landinu bárust ríflega 2.100 umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði á árinu 2013 en í lok þess árs voru um 1.700 manns á biðlista eftir íbúð. Flestar umsóknir berast Reykjavíkurborg, 1.165 en þar voru um 840 manns á biðlista en hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu bárust samtals 320 umsóknir árið 2013 og 550 manns voru á biðlista í lok þess árs. Algengast er að biðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði sé eitt á eða lengur.

Taka skal fram að skilyrði umsóknar um félagslegt húsnæði eru að jafnað þau að heimili uppfylli ákveðin skilyrði ss. varðandi félagslegar aðstæður, tekju- og eignarmörkum.

Þrátt fyrir verulegan vanda fjölgar félagslegum leiguíbúðum lítið, íbúðum fjölgaði í heildina um 60 á milli áranna 2012 og 2013 sem jafngildir 1,2% fjölgun. Aðeins örfá sveitarfélög standa í raun undir þessari fjölgun, má þar nefna að í Reykjavík fjölgaði íbúðum einungis um 10, í Kópavogi fjölgaði félagslegum leiguíbúðum um 17, í Sandgerði um 15, á Akranesi um 7, Blönduósi um 10, Akureyri um 17, Norðurþingi um 11 og Fjarðabyggð um 10. Í ljósi erfiðrar stöðu í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu vekur sérstaka athygli að á Seltjarnarnesi fækkar félagslegu leiguíbúðum um 19 milli ára.

Fá sveitarfélög áforma að fjölga félagslegum leiguíbúðum á næstunni. Reykjavíkurborg stendur nánast undir allri áformaðir fjölgun en þar stendur til að fjölga íbúðum um 270. Í Kópavogi eru áform um að fjölga íbúðum um 10 en Hafnarfjörður og Mosfellsbær sem einnig segjast áforma fjölgun tilgreina ekki fjölda íbúða.

Framboð af félagslegu leiguhúsnæði sem hlutfall af íbúafjölda er mjög misjafnt eftir sveitarfélögum. Staðan í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þar sem vandinn er hvað mestur einnig mjög misjöfn. Reykjavík á hlutfallslega flestar íbúðir á svæðinu, 1,8 á hverja 100 íbúa. Í Kópavogi er hlutfallið 1,3, í Hafnarfirði 0,85 en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eiga mun færri íbúðir miðað við stærð, 0,39 á Seltjarnarnesi, 0,35 í Mosfellsbæ og 0,2 í Garðabæ. Nokkur sveitarfélög skera sig úr hvað fjölda íbúða varðar og má þar nefna Vopnafjörður þar sem félagslegar leiguíbúðir eru 8,9 á hverja 100 íbúa, Skagaströnd með 6 íbúðir, Blönduós og  Húnaþing-vestra með um 5 íbúðir og Ísafjörður, Fjallabyggð, Vesturbyggð og Seyðisfjörður með um 3 íbúðir.

 Sjá nánar :

Hugmyndir ASÍ um nýtt félagslegt húsnæðiskerfi

Ályktun 41. þings ASÍ um húsnæðismál