Skip to main content

Á Norðurlandi vestra starfa tveir VIRK ráðgjafar í starfsendurhæfingu og veita markvissa ráðgjöf til einstaklinga sem vegna veikinda eða slysa eru frá vinnu.

 

 

VIRK ráðgjöf í starfsendurhæfingu

Á Norðurlandi vestra starfa tveir VIRK ráðgjafar í starfsendurhæfingu og veita markvissa ráðgjöf til einstaklinga sem vegna veikinda eða slysa eru frá vinnu. Hlutverk VIRK ráðgjafa er að aðstoða fólk við að fara aftur til vinnu. Þjónustan er ferli sem felur í sér greiningu á stöðu og möguleikum, gerð er einstaklingsmiðuð endurhæfingaráætlun og veitt eftirfylgd í samræmi við verkferla VIRK. Veitt er ráðgjöf og hvatning sem tekur mið af aðstæðum hvers og eins, með það að markmiði að viðkomandi einstaklingur efli færni og geti snúið til starfa á ný. Rauði þráðurinn í öllu ferlinu er að efla virkni til vinnu og varðveita vinnusamband einstaklings. Rannsóknir sýna að mikilvægt er að nýta tímann í veikindaleyfi á uppbyggilegan hátt, eftir getu hvers og eins. Endurhæfingu er best að hefja sem fyrst í veikindaferlinu og getur þá verið gott að fá ráðgjöf og stuðning sérhæfðra fagaðila til að ná sem mestum árangri.

Starfsendurhæfing krefst fullrar þátttöku hlutaðeiganda og því er nauðsynlegt að geta og vilji séu til staðar til að taka markvissan þátt. Miðað er við að einstaklingur sé með vottaðan heilsubrest frá lækni þegar hann kemur til ráðgjafa. Ráðgjöf VIRK er einstaklingum að kostnaðarlausu. Starfsendurhæfing krefst samvinnu ráðgjafa við marga aðila s.s. viðkomandi einstakling, atvinnurekanda, heilsugæslu, aðra sérfræðinga, fulltrúa stéttarfélaga og sjúkrasjóða/styrktarsjóða sem og utanaðkomandi starfsendurhæfingaraðila. Ráðgjafi er bundinn þagnarskyldu um hvað eina sem hann verður áskynja í starfi sínu og varðar þá einstaklinga sem til hans leita.

Þjónusta VIRK ráðgjafa er samvinnuverkefni stéttarfélaga og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Ráðgjafar starfa hjá stéttarfélögum en á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. VIRK ráðgjafar á Norðurlandi vestra eru Hanna Dóra Björnsdóttir og Hrafnhildur Guðjónsdóttir, þær starfa hjá Öldunni stéttarfélagi og veita ráðgjöf á Sauðárkróki, Blönduósi, Skagaströnd og Hvammstanga.

Óskir þú frekari upplýsinga eða vilt biðja um viðtalstíma er hægt að senda tölvupóst á virk@stettarfelag.is Símleiðis er hægt að hafa samband við skrifstofu Öldunnar í síma 453 5433 eða skrifstofu Samstöðu í síma 452 4932.

Einnig viljum við benda á heimasíðu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs www.virk.is