Skip to main content

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á fiskafurðum en algengt er að verðmunur á hæsta og lægsta verði milli verslana sé 75%.

Í nýrri könnun ASÍ á fiskafurðum kemur í ljós að verðmunurinn á hæsta og lægsta verði er að lágmarki 75%.
Könnunin var gerð í 25 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð, víðsvegar um landið sl. mánudag.
Kannað var verð á 23 algengum tegundum af fiskafurðum. Melabúðin neitaði þátttöku í könnuninni.
 
Lægsta verðið var oftast að finna hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi Hafnarfirði eða í 14 tilvikum af 23, fiskbúðin Fiskás Hellu var næst oftast með lægsta verðið eða í 3 tilvikum af 23.
Meiri dreifing var á hæsta verðinu á milli verslana. Hæsta verðið var hjá Hafbergi Gnoðavogi í 5 tilvikum af 23, hjá Fiskbúðinni Mos Mosfellsbæ í 4 tilvikum af 23 og hjá Hagkaupum og Fiskbúðinni Höfðabakka í 3 tilvikum.

Enginn söluaðli átti til allar 23 tegundirnar sem skoðaðar voru í könnuninni en Hafberg átti 22 tegundir og Litla fiskbúðin og Fiskbúðin Hófgerði áttu 21. Fæstar tegundirnar sem skoðaðar voru, voru til hjá Fylgifiskum Suðurlandbraut eða aðeins 5 af 23.
 
Munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni var frá 24% upp í 114%. Mestur verðmunur í könnuninni var á meðalkæstri skötu sem var dýrust á 1.690 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Höfðabakka, en ódýrust á 790 kr./kg. hjá Hafinu Hlíðarsmára en það gerir verðmun upp á 900 kr. eða 114%.
 
Minnstur verðmunur var á roðflettu og beinlausu þorskflaki sem var ódýrast á 1.490 kr./kg. hjá Fisk kompaní Akureyri og fiskbúðinni Fiskás en dýrust á 1.845 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði,
en það gerir 355 kr. verðmun eða 24%.
 
Roðflett og beinhreinsað ýsuflak sem var til hjá öllum verslunum var ódýrast á 1.590 kr./kg. hjá fiskbúðinni Fiskás og Litlu fiskbúðinni en dýrast á 1.990 kr./kg. hjá Hafbergi og Fiskbúðinni Höfðabakka sem er 25% verðmunur.

Á heimasíðu ASÍ má sjá fréttina í heild sinni, ásamt upplýsingum um verð í hverri verslun fyrir sig.