Skip to main content
VMF

Iceland oftast með hæsta verðið en Heimkaup að meðaltali lengst frá lægsta verði

By október 21, 2022No Comments

Bónus var oftast með lægsta verðið og Iceland oftast með hæsta verðið í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru sem framkvæmd var mánudaginn 17. október. Bónus var með lægsta verðið í 86 tilfellum og Krónan í 20 tilfellum. Iceland var með hæsta verðið í 51 tilfelli og Heimkaup með hæsta verðið í 45 tilfellum. Ef horft er til meðalverðs var Bónus að jafnaði með lægsta verðið á vörum í könnuninni sem var að meðaltali 2,7% frá lægsta verði. Heimkaup var með hæsta meðalverðið sem var að meðaltali 34% frá lægsta verði. 


79% munur á hæsta og lægsta verði af lambalæri og 50% á túnfiski í dós
Finna má mikinn mun á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum og oft á algengum eða mikið keyptum vörum. Sem dæmi var 34% munur á 300 gr. pakka af brauðosti í sneiðum frá MS. Lægst var verðið í Bónus, 898 kr. en hæst í Iceland, 1.199 kr. Þá var 40% munur á hæsta og lægsta verði af Lífskorn brauði frá Myllunni sem var ódýrast í Bónus, 498 kr. en dýrast í Iceland, 699 kr. Fleiri dæmi um mikinn verðmun á algengum vörum í könnuninni eru 79% munur á hæsta og lægsta kílóverði af lambalæri, 45% á kílóverði af laxaflökum, 117% munur á kílóverði af frosnu mangói, 47% mun á Barilla pasta skrúfum og 50% munur á Ora túnfisk í olíu. Verð á vörum og mun á hæsta og lægsta verði má sjá í töflunum hér að neðan. 

Sjá nánar í töflum á heimasíðu Verðlagseftirlits ASÍ


500 kr. verðmunu
r á kaffipoka
124% munur var á Nestlé barnagraut sem var dýrastur í Iceland, 1.539 kr. en ódýrastur í Nettó, 839 kr. Þá var 42% eða 504 kr. munur á poka af French Roast kaffi frá Te og Kaffi sem var ódýrastur í Bónus, 1.195 kr. en dýrastur í Heimkaup, 1.699 kr. Oft var mikill munur á hæsta og lægsta verði á grænmötum og ávöxtum en sem dæmi má nefna 110% mun á hæsta og lægsta kílóverði af banönum, 303% mun á kílóverði á rauðlauk og 35% mun á kílóverði af íslenskum gullauga kartöflum.


Bónus með lægsta meðalverðið en Heimkaup það hæsta
Iceland var oftast með hæsta verðið, í 51 tilfelli en Heimkaup næst oftast, í 45 tilfellum, Hagkaup í 26 tilfellum og Fjarðarkaup í 14 tilfellum. Bónus var oftast með lægsta verðið í 86 tilfellum, Krónan í 20 tilfellum og Fjarðarkaup í 17 tilfellum. Með því að skoða hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru má raða verslununum eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni var að meðaltali frá lægsta verði. Verð í Bónus var að meðaltali 2,7% frá lægsta verði en verð í Krónunni 6,9% og Nettó 9%. Verð í Heimkaup var aftur á móti að meðaltali 34% frá lægsta verði og verð í Iceland 29,3% frá lægsta verði.  

Flestar vörurnar sem voru til skoðunar í könnuninni voru til í verslun Fjarðarkaupa eða 122 af 133 og næst flestar hjá Krónunni, 120. Fæstar vörur voru til í Heimkaupum, 108 en á eftir Heimkaup voru Bónus og Kjörbúðin með 110 vörur hvor um sig. 

Verðmerkingum víða ábótavant 
Verðlagseftirlit ASÍ bendir á að verslunum ber skylda að verðmerkja allar vörur með hillumiða samkvæmt lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu en í reglum nr. 536/2011 má finna nánari útfærslu á því hvernig skuli staðið að verðmerkingum. Á þessu er víða misbrestur og ítrekað eru vörur ekki verðmerktar. Skortur á verðmerkingum slævir verðvitund neytenda og grefur undan samkeppni. Skanni kemur ekki í staðinn fyrir hillumiða, hann er eingöngu til að auðvelda neytendum að finna út endanlegt verð á forpakkaðri vöru.


Um könnunina
Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni er að meðaltali frá lægsta verði.

Í könnuninni var hilluverð á 133 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Nettó Lágmúla, Bónus Selfossi, Krónunni Grafarholti, Fjarðarkaupum, Iceland Seljabraut, Hagkaup Garðabæ, Kjörbúðinni Hellu og á Heimkaup.is. 

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.