Skip to main content
VMF

Skattskrið og sjálfvirkir sveiflujafnarar

By júlí 4, 2022No Comments

Skattbyrði launa hækkaði á síðustu áratugum, mest hjá tekjulægri hópum. Ástæðan fyrir því er að persónuafsláttur hækkaði ekki til jafns við laun. Þegar laun hækka umfram persónuafsláttur eykst skattbyrði, nefnd skattskrið. Sem dæmi má nefna að skattbyrði lægstu launa á vinnumarkaði var 3,5% árið 1999. Skattbyrði lægstu launa var hæst 18% árið 2019.Fram að síðustu áramótum fylgdi persónuafsláttur verðlagi. Til að draga úr áhrifum skattskriðs var sú breyting gerð um síðustu áramót að viðmiðunarfjárhæðir (persónuafsláttur og þrepamörk) skattkerfisins fylgi framvegis breytingu á vísitölu neysluverðs að viðbættu mati um langtímaþróun framleiðni. Ætlunin var að koma böndum á skattskrið raunlauna og viðhalda svokallaðri sjálfvirkri sveiflujöfnun tekjuskattskerfisins. Er þar brugðist við gagnrýni ASÍ á hækkun á skattbyrði lægstu tekna undanfarna áratugi en – ein af kröfunum við gerð kjarasamninganna 2019 var að því fyrirkomulagi yrði breytt.

Í greinargerð fjárlagafrumvarps er miðað við 1% árlegan framleiðnivöxt. Það þýðir að persónuafsláttur og mörk skattþrepa hækka um 1% að raunvirði. Það er heldur lágt viðmið. Árleg meðalhækkun tekjuskattsstofnsins frá 1992 er 1,8% að raunvirði. Að óbreyttu mun nýja fyrirkomulagið því leiða til hækkunar á skattbyrði.

Með sjálfvirkri sveiflujöfnun er átt við þær breytingar sem eiga sér stað milli útgjalda og tekna hins opinbera við breyttar aðstæður á vinnumarkaði. Þegar atvinnulausum fjölgar, hækka útgjöld til atvinnuleysisbóta án nokkurra breytinga á fjárlögum. Að sama skapi lækka skattgreiðslur þegar hægir á efnahagsstarfsemi þar sem skattgreiðslur eru hlutfall tekna og neyslu. Umfang þessara áhrifa ræðst af því hvernig skatta- og tilfærslukerfi eru hönnuð. Þegar laun hækka umfram persónuafslátt er virkni sjálfvirkra sveiflujafnara meiri. Þá fer stærri hluti tekjuhækkunar í skattgreiðslur.

Hefðbundinn mælikvarði á virkni sveiflujafnara er hlutfall tekjuhækkunar sem fer í skattgreiðslur. Það hlutfall fer eftir því hversu mikið laun og persónuafsláttur hækka. Við útreikninga er miðað við þrjár mismunandi aðferðir við uppfærslu persónuafsláttar:

Fyrra fyrirkomulag: persónuafsláttur hækkar til jafns við verðbólgu. Það fyrirkomulag var við lýði í nokkur ár fram að síðustu áramótum.
Núverandi kerfi: persónuafsláttur hækkar um 1% að raunvirði.
Ekkert skattskrið: persónuafsláttur hækkar til jafns við tekjur.

Virkni sjálfvirkra sveiflujafnara mælist mest í gamla fyrirkomulaginu. Við slíkt fyrirkomulag fer 36% af tekjuhækkun í tekjuskatt og um 64% fer til heimilanna, sjá meðfylgjandi mynd. Í núverandi fyrirkomulagi fer 30% af tekjuhækkun í tekjuskatt. Ef ekkert skattskrið væri og persónuafsláttur hækkar til jafns við laun færi 24% af tekjuhækkun í tekjuskatt. Ef einnig er miðað við virðisaukaskatt og tryggingagjald fer enn hærra hlutfall af tekjuhækkun í skattgreiðslur. Lesa má nánar um útreikninga í nýlegri grein í Vísbendingu (2022, 23. tölublað).

Niðurstöðurnar gefa til kynna að virkni sjálfvirkra sveiflujafnara minnki um 10-20% við að útrýma skattskriði með því að hækka persónuafslátt til jafns við laun. Sé ætlunin að stemma stigu við skattskriði ætti árleg raunhækkun viðmiðunarfjárhæða að vera meiri en 1%. Meðalhækkun tekjuskattstofns er 1,8% að raunvirði. Ef vöxtur verður viðlíka í framtíðinni leiðir núverandi fyrirkomulag til hækkunar á skattbyrði í framtíðinni.