Skip to main content

Nú er vorið á næsta leiti og kominn tími til að setja sumardekkin undir bílinn, en frá 15. apríl er ekki lengur löglegt að aka um á nagladekkjum. Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 27 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið þann 2. apríl.

Nú er vorið á næsta leiti og kominn tími til að setja sumardekkin undir bílinn, en frá 15. apríl er ekki lengur löglegt að aka um á nagladekkjum.  Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 27 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið þann 2. apríl.

Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mitshubishi)  með 18´´ álfelgum og stálfelgum (265/60R18) sem var ódýrust á 7.157 kr. hjá Bifreiðaverkstæði S.B á Ísafirði en dýrust á 13.320 kr. hjá Öskju verðmunurinn var 6.163 kr. eða 86%.
 
Minnstur verðmunur í könnuninni var á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir jeppling (t.d. Toyota Rav) á 16´´ álfelgum (225/70R16) sem var ódýrust á 5.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 10.015 kr. hjá Betra Gripi Guðrúnartúni, verðmunurinn var 4.025 kr. eða 67%.
Fyrir bíl á stálfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 5.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 9.977 kr. hjá Betra Gripi, verðmunurinn var 3.987 kr. eða 67%. 

Kostnaður við dekkjaskipti undir smábíl,  minni meðalbíl og meðalbíl á 14, 15 og 16´´ álfelgu og stálfelgu(175/65R14, 195/65R15 og 205/55R16), var ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu Kópavogi, en dýrust á 8.510 kr. hjá Öskju, verðmunurinn var 3.520 kr. eða 71%.

Sjá nánar niðurstöður í töflu á heimasíðu ASÍ.

Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Dekkjahöllin, Barðinn, Nesdekk, Hjólbarðaþjónusta  Magnúsar, Sólning og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels neituðu þátttöku í könnuninni

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15, 16 og 18´´ á 29 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Verðin í könnuninni eru án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afsætti t.d. FÍB, eldri borgara og staðgreiðsluafslátt, viðskiptavinir eru því hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.