Skip to main content

Föstudagspistill forseta ASÍ

Um þessar mundir stendur yfir hringferð ASÍ um landið þar sem stjórnir aðildarfélaganna eru heimsóttar. Ég vil byrja á að þakka góðar móttökur, skemmtileg og krefjandi samtöl og brýningu til heildarsamtaka vinnandi fólks.

Um þessar mundir stendur yfir hringferð ASÍ um landið þar sem stjórnir aðildarfélaganna eru heimsóttar. Ég vil byrja á að þakka góðar móttökur, skemmtileg og krefjandi samtöl og brýningu til heildarsamtaka vinnandi fólks. Ég hlakka líka til áframhaldandi samtals næstu vikurnar. Það er ljóst eftir þessa fyrstu fundi að atvinnuleysi og vinnumarkaðasúrræði er fólki ofarlega í huga, húsnæðismál, heilbrigðismál og almennt staða vinnandi fólks í samskiptum við atvinnurekendur og samtök þeirra.

Úrræði sem stjórnvöld kynntu síðastliðinn föstudag um atvinnuúrræði fyrir langtíma atvinnulausa ber að fagna og er tilefni til að hvetja atvinnuleitendur, stofnanir, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og minni fyrirtæki til að taka þátt í verkefninu sem ber yfirskriftina “hefjum störf”. Langtíma atvinnuleysi og afkomuóöryggi hefur skaðleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu eins og könnun Vörðu – rannsóknarmiðstöðvar vinnumarkaðarins ber með sér og því mun skipta gríðarlegu máli á næstunni hvernig aðgengi að heilbriðisþjónustu verður háttað.

Víða um landið er aðgengið lélegt og ljóst að alvarlegt misvægi er í ráðstöfun fjármuna á milli landshluta þegar kemur að heilbrigðismálum. Það er ekki í lagi að sérgreinalæknar hafi rúmar heimildir til að ganga í sameiginlega sjóði á meðan ekki er hægt að halda úti lágmarks heilbrigðisþjónustu í stórum byggðakjörnum.

Heilbrigðisstofnanir eru svo fjársveltar að þær grípa til þeirra ráða að útvista ræstingum og þvottum, sem þýðir einungis það að kjör lægst launaða starfsfólksins versna og þjónustan sömuleiðis. Ég krefst þess að stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga lýsi því yfir að útvistun verði hætt þegar í stað og kjör þeirra sem vinna hjá hinu opinbera verði varin. Það er raunveruleg hætta á því að við flutning hjúrkunarheimila frá sveitarfélögum til ríkisins lækki laun starfsfólks – fólks sem hefur hlaupið hratt eftir niðurskurð hrunsáranna, tekið á sig skert starfshlutfall og greitt fyrir það með heilsubresti og lægri kjörum. Á sama tíma hóta sérgreinalæknar að beita sjúklingum fyrir sig til að fá áfram nær óheftan aðgang að ríkiskassanum. Svona er hin bitra mynd stéttskiptingarinnar innan heilbrigðisgeirans.

Góða helgi,
Drífa