Skip to main content

Aðeins Akureyri og Garðabær bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir atvinnulausa, af þeim 15 sveitarfélögum sem úttekt verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum og gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat nær til.

Aðeins Akureyri og Garðabær bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir atvinnulausa, af þeim 15 sveitarfélögum sem úttekt verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum og gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat nær til.  Ekkert sveitarfélag er með lægri skóladagvistunargjöld fyrir atvinnulausa. Í tveimur sveitarfélögum, Hafnarfirði og Mosfellsbæ, eru afslættir af leikskólagjöldum reiknaðir út frá tekjuviðmiðum og geta atvinnulausir fallið undir þau viðmið í þeim sveitarfélögum.

Öll 15 sveitarfélögin bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir forgangshópa en einungis fjögur þeirra bjóða upp á lægri gjöld fyrir skóladagvistun/frístund. Greiðslur foreldra sem tilheyra forgangshópum hækka því í mörgum tilfellum töluvert milli skólastiga en hækka síður hjá þeim sem greiða almenn gjöld. Forgangshópar greiða því í flestum tilfellum sömu gjöld og aðrir þegar börnin eru komin í grunnskóla. Mjög misjafnt er hverjir tilheyra forgangshópum hjá sveitarfélögunum og greiða lægri gjöld. Algengast er að einstæðir foreldrar og námsmenn greiði lægri leikskólagjöld en fá sveitarfélög bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir öryrkja og atvinnulausa. 

Verðlagseftirlit ASÍ skoðaði hvernig kostnaður foreldra í 15 stærstu sveitarfélögum landsins breytist við að barn færist frá leikskóla yfir í skóladagvist/frístund og hverjir það eru sem tilheyra forgangshópum og hafa kost á að greiða lægri gjöld. Miðað var við eitt barn í vistun í 8 tíma á leikskóla með mat og í 3 tíma í skóladagvist með mat og síðdegishressingu. 

Flest sveitarfélög með lægri leikskólagjöld fyrir einstæða foreldra og foreldra í námi 
Öll 15 sveitarfélögin bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir forgangshópa en misjafnt er hverjir falla undir þá skilgreiningu hjá sveitarfélögunum. Akureyrarbær og Garðabær eru einu sveitarfélögin sem bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir atvinnulausa. Í Garðabæ geta foreldrar sótt um tímabundinn afslátt vegna atvinnuleysis annars foreldris eða beggja en hjá Akureyrarbæ er afsláttur af leikskólagjöldum ef báðir foreldrar eru atvinnulausir. Foreldrar sem eru á atvinnuleysisbótum ættu þó að falla undir tekjuviðmið hjá Mosfellsbæ og Hafnafjarðarbæ, a.m.k. ef þeir eru á grunnatvinnuleysisbótum. Í öllum sveitarfélögum er boðið upp á lægri leikskólagjöld fyrir einstæða foreldra en í Mosfellsbæ og Hafnafirði eru tekjuviðmið og fer það þá eftir tekjum einstæðra foreldra hvort þau geta fengið lækkun á gjöldum en tekjuviðmiðin má sjá í töflu hér að neðan. Þá greiða fjölskyldur þar sem báðir foreldrar eru í námi yfirleitt lægri gjöld. Í einhverum tilfellum er nóg að annað foreldri sé í námi og þá greiða öryrkjar lægri gjöld í nokkrum sveitarfélögum.

Hafa ber í huga að þrátt fyrir að sum sveitarfélög séu með afslætti fyrir forgangshópa en önnur ekki þýðir það ekki endilega að gjöldin séu lægri í sveitarfélögunum sem bjóða upp á afslætti. Leikskólagjöld fyrir forgangshópa í sumum sveitarfélögum geta verið hærri en almenn gjöld hjá öðrum sveitarfélögum en í töflum neðar í fréttinni má sjá hvar gjöldin eru hæst/lægst. Í þessari töflu má sjá hvaða hópar fá afslætti af leikskólagjöldum hjá sveitarfélögunum og hversu háir afslættirnir eru og í töflunni þar fyrir neðan má sjá tekjuviðmið og samsvarandi afslætti hjá Hafnarfjarðarbæ og Mosfellsbæ.

Smelltu hér til að skoða nánar í töflum á heimasíðu ASÍ

Aðeins fjögur sveitarfélög bjóða upp á lægri skóladagvistunargjöld fyrir forgangshópa
Einungis fjögur sveitarfélög af 15 bjóða upp á lægri skóladagvistunargjöld fyrir forgangshópa en það eru Kópavogur, Garðabær, Akranes og Seltjarnarnes. Í töflunni hér að neðan má sjá hvaða hópar tilheyra forgangshópum sveitarfélaganna.

Gjöld fyrir forgangshópa hækka í flestum tilfellum þegar börn fara úr leikskóla yfir í grunnskóla

Gjöld fyrir vistun barna breytast í mörgum tilfellum þegar börnin færast milli skólastiga og fara úr leikskóla yfir í grunnskóla og hækka í mörgum tilfellum talsvert. Miðað er við heildargjöld, gjöld fyrir vistun og mat á báðum skólastigum og er skólamatur og síðdegishressing því innifalin í gjöldum fyrir grunnskólabörn.

Gjöld fyrir forgangshópa hækka milli skólastiga í 10 sveitarfélögum af 15 en hækka í fimm sveitarfélögum. Hafnarfjarðarbær og Mosfellsbær eru með misháa afslætti af leikskólagjöldum og hækka gjöldin hjá fólki sem er með hærri afslætti af leikskólagjöldum í þessum sveitarfélögum því meira milli skólastiga. Mest hækka leikskólagjöld hjá fólki með hæsta mögulega afslátt (75%) hjá Hafnafjarðarbæ, bæði í prósentum og í krónum, 86% eða 13.350 kr. Næst mest er prósentuhækkun á gjöldum milli skólastiga hjá Reykjavíkurborg, 59% eða 10.614 kr. Í krónum talið hækka gjöld næst mest milli skólastiga hjá Seltjarnarnesbæ, 13.034 kr. eða 55% en það er ef staða viðkomandi foreldra breytist þannig að afslátturinn minnki úr 40% í 25%. Gjöldin hækka minna ef afslátturinn helst óbreyttur.

Mest lækka gjöld fyrir forgangshópa sem fara úr leikskóla yfir í grunnskóla hjá Akraneskaupstað, um 13% eða 3.980 kr. en Akranes er með 40% afslátt af skóladagvistunargjöldum fyrir forgangshópa. Hafa ber í huga að þrátt fyrir að gjöld hækki meira milli skólastiga hjá einu sveitarfélagi en öðru er ekki víst að gjöldin séu hærri en í öðrum sveitarfélögum.

Í töflunni hér að neðan má sjá hversu mikið gjöldin lækka eða hækka við það að börnin fari úr leikskóla yfir í grunnskóla. Með því að ýta á nafnið á dálkunum raðast sveitarfélögin eftir því hvar gjöldin hækka/lækka mest. Ef ýtt er á heitið á gjöldunum, dálkinn sem er með upphæð gjaldanna, raðast sveitarfélögin eftir því hvar hæstu/lægstu gjöldin eru.

Almenn gjöld lækka í flestum tilfellum milli skólastiga
Ólíkt gjöldum fyrir forgangshópa lækka almenn gjöld í flestum tilfellum milli skólastiga og lækka almenn gjöld lækka í 11 sveitarfélögum af 15 en hækka í fjórum. Hækkanir á almennum gjöldum eru í flestum tilfellum minni en hækkanir á gjöldum fyrir forgangshópa. Í töflunni hér að neðan er hægt að raða sveitarfélögunum eftir því hvar gjöldin hækka/lækka mest milli skólastiga og eftir því hvar gjöldin eru hæst/lægst með sama hætti og í töflunni hér að ofan. Mest hækka almenn gjöld milli skólastiga hjá Seltjarnarnesbæ og eru gjöld fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat á Seltjarnarnesi 36% eða 11.590 kr. hærri en leikskólagjöldin. Mest lækka almenn gjöld þegar barn færist milli skólastiga í Fjarðabyggð, um 34% eða 11.641 kr.

Um úttektina
Gjaldskrár fyrir leikskóla voru bornar saman við gjaldskrá skóladagvistunar, en ekki var tekið tillit til neinna gjalda sem gætu verið innheimt aukalega eða mat lagt á gæði þjónustunnar. Miðað er við nýjustu gjaldskrár leikskóla, átta tíma vistun með fæði og nýjustu gjaldskrár fyrir skóladagvistun, mánaðargjald, 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag eða 63 tíma í mánuði ásamt hressingu (x21) og hádegismat (x21). Misjafnt er á milli sveitarfélaga hvernig gjaldskráin fyrir skóladagvist/frístund er uppbyggð, til dæmis er hámarksgjald, mánaðargjald, aukagjald fyrir gæslu á starfsdögum, aukagjald fyrir að aðstoð við heimanám og skráningargjald. Einnig er hádegismatur seldur í formi annaráskriftar, mánaðargjalds, klippikorts eða sem stakar máltíðir.