Skip to main content

Efnahagskreppan af völdum COVID-faraldursins hefur komið sérstaklega þungt niður á ungu fólki og erlendum ríkisborgurum hér á landi.

Þungt högg fyrir ungt fólk og erlenda ríkisborgara – Ólík áhrif eftir landsvæðum og kyni

Efnahagskreppan af völdum COVID-faraldursins hefur komið sérstaklega þungt niður á ungu fólki og erlendum ríkisborgurum hér á landi. Atvinnuleysi er afar mismunandi eftir landsvæðum og kynbundin áhrif COVID-kreppunnar hafa m.a. komið fram í hlutfallslega mikilli aukningu atvinnuleysis meðal kvenna með grunnskólapróf og í auknu álagi af ólaunaðri vinnu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í fyrstu skýrslu sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um efnahagsleg áhrif COVID-faraldursins sem birt er í dag. Hópurinn hóf störf um miðjan september og áformar að senda frá sér reglulega skýrslur um áhrif COVID-kreppunnar.

Í þessari fyrstu skýrslu er athygli sérstaklega beint að hópum í viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði og áhrifum faraldursins á þá. Í efnahagslegu tilliti hefur samdráttur á Íslandi bitnað á erlendum ríkisborgurum umfram íslenska. Atvinnuleysi í þessum hópi er mjög mikið og langt umfram meðaltal í landinu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er einnig vaxandi og mælist rúm 18% í aldurshópnum 16-24 ára.

Vakin er athygli á að atvinnuleysi og ógn við afkomu geti aukið hættu á vinnumarkaðsbrotum gegn launafólki.

Í skýrslunni kemur einnig fram að kynbundin áhrif COVID-veirunnar birtast í auknu álagi á kvennastéttir og inni á heimilum. Athygli er vakin á því að einkum konur sinni umönnunarstörfum og ólíkt mörgum öðrum eigi þær þess því ekki kost að sinna störfum sínum í fjarvinnu. Konur í lægri menntunar- og tekjuflokkum verða fyrir mestum áhrifum í yfirstandandi efnahagssamdrætti.

Fyrirliggjandi tölur gefa til kynna að atvinnuleysi komi af miklum þunga niður á íbúum Suðurnesja og Suðurlands. Hlutfallsleg aukning atvinnuleysis á Suðurnesjum er 92% frá í marsmánuði. Sérfræðingahópurinn hvetur stjórnvöld til að setja sér heildstæða atvinnustefnu sem sé um leið verkfæri til að takast á við afleiðingar COVID-kreppunnar og stuðla að uppbyggingu til framtíðar. Þá sé nauðsynlegt að sértækum aðgerðum verði beint að ungu fólki og erlendum ríkisborgurum, auk þess að tekist verði á við svæðisbundinn vanda atvinnuleysis. Loks telur hópurinn mikilvægt að fylgjast vel með kynbundnum áhrifum COVID-kreppunnar og að vinnumarkaðsaðgerðir taki mið af þeim.

Hér má lesa fyrstu skýrslu sérfræðingahópsins um efnahagsleg áhrif COVID faraldursins