Skip to main content

Innfluttar vörur og matvara hækka í verði

Vísitala neysluverðs mældist 480,1 stig í maí mánuði samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofunnar sem birt var í morgun. Verðlag hækkaði um 0,54% milli mánaða og mælist verðbólga nú 2,6% á ársgrundvelli.

Vísitala neysluverðs mældist 480,1 stig í maí mánuði samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofunnar sem birt var í morgun. Verðlag hækkaði um 0,54% milli mánaða og mælist verðbólga nú 2,6% á ársgrundvelli.
Meiri hækkun mældist ef horft er fram hjá áhrifum húsnæðiskostnaðar, eða 0,88% milli mánaða og mælist verðbólga án húsnæðis nú einnig 2,6%.

Verð á mat- og drykkjarvörum hafði mest áhrif til hækkunar á vísitölunni í maí en alls hækkaði sá liður um 1,6% (0,24% vísitöluáhrif). Innfluttar vörur hækkuðu þó einnig skarpt, t.d. verð á nýjum bílum um 3,7% (0,2%) og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 2,9% (0,16%). Á móti lækkaði húsnæðiskostnaður, þ.e. reiknuð húsaleiga um 0,6% (-0,11%).

Sjá skýringarmyndir á heimasíðu ASÍ 

Sé rýnt betur í mælingu mánaðarins má sjá hvernig gengisveiking síðustu mánaða kemur fram í hækkunum á innfluttu verðlagi milli mánaða. Nýir bílar hækka eins og fyrr segir um 3,7% (3,2% hækkun á nýjum bílum og varahlutum), en einnig innflutt mat- og drykkjarvara um 2,6%. Alls hækkuðu innfluttar vörur um 1,4% en töluverð hækkun mælist þó einnig í annarri innlendri mat- og drykkjarvöru eða 1,9%.

Verð á þjónustu stendur nær í stað milli mánaða en opinber þjónusta hækkar um 0,1% milli mánaða og önnur þjónusta lækkar um 0,1% milli mánaða. Verð á eldsneyti hélt einnig áfram að lækka milli mánaða, 3,4%, og hefur bensínverð nú lækkað um 14,1% milli ára.

Verðbólga mælist nú lítillega yfir markmiði Seðlabankans en hún var síðast yfir markmiði í nóvember á síðasta ári. Núverandi verðlagsþróun er ekki óvænt en um þessar mundir koma fram hækkanir sem skýrast af veikingu krónunnar síðustu misseri og svo lækkanir sem skýrast af kólnun í hagkerfinu og lægra hrávöruverði. Við síðustu vaxtaákvörðun var sú þróun til umræðu en í yfirlýsingu Peningastefnunefndar sagði:

„Gengi krónunnar hefur lækkað frá því að farsóttin barst til landsins en á móti vega mikil lækkun olíuverðs og lækkun matvæla- og hrávöruverðs. Þá hafa verðbólguvæntingar lítið breyst og kjölfesta þeirra í verðbólgumarkmiði bankans virðist traust. Samkvæmt spá Seðlabankans eykst verðbólga lítillega á næstu mánuðum vegna áhrifa gengislækkunar krónunnar. Aukinn slaki í þjóðarbúinu mun hins vegar vega þyngra þegar líða tekur á þetta ár og horfur eru á að verðbólga verði undir 2% á seinni hluta spátímans.“

Samkvæmt nýjustu spá Seðlabankans er búist við að verðbólga verði 2,3% að jafnaði á þessu ári. Sú spá kann að vera heldur bjartsýn en ekki er ólíklegt að verðbólga verði lítillega yfir en þó í nálægð við verðbólgumarkmið á næstu misserum.