Skip to main content

Úttekt verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum hjá 16 stærstu sveitarfélögum landsins sýnir að gjöldin hækka milli ára hjá öllum sveitarfélögum nema Mosfellsbæ og Vestmannaeyjum.

Úttekt verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum hjá 16 stærstu sveitarfélögum landsins sýnir að gjöldin hækka milli ára hjá öllum sveitarfélögum nema Mosfellsbæ og Vestmannaeyjum.  Leikskólagjöldin hækka mest á Seltjarnarnesi um tæplega 7% fyrir 8 tíma vistun með fæði og næst mest í Garðabæ um rúm 3%. Leikskólagjöldin lækka um 3,7% í Mosfellsbæ en standa í stað milli ára í Vestmannaeyjum.
Almenn leikskólagjöld fyrir 8 tíma vistun með fæði eru hæst í Garðabæ en lægst í Reykjavík og munar þar tæplega 14.000 krónum á mánuði eða 53% . Sömu gjöld fyrir forgangshópa eru lægst í Reykjavík og hæst í Sveitarfélaginu Árborg en þar nemur munurinn ríflega 3.300 kr. á mánuði eða 12,6%. Gjöld fyrir níu tíma vistun á leikskóla er hinsvegar hæst hjá Fljótsdalshéraði en lægst í Mosfellsbæ.

Sjá nánar í töflu á heimasíðu ASÍ

Mestar hækkanir á leikskólagjöldum á Seltjarnarnesi
Oftast eru hækkanir á leikskólagjöldum milli ára um eða undir 2,5% og eru hækkanir ekki umfram það hjá 14 sveitarfélögum af þeim 16 sem skoðuð eru. Seltjarnarnes sker sig úr, en þar hækkar 8 tíma vistun með fæði um 6,9% sem má rekja til 10% hækkunar á tímagjaldi. Í krónum talið hækka 8 tímar með fæði á Seltjarnarnesi því um 1.872 kr. á mánuði eða 20.592 kr. á ári sé miðað við 11 mánaða vistun.  Á sama tíma hækkar níundi tíminn um 87,4% eða úr 3.505 kr. í 6.569 krónur og þá hækkar 9 tíma vistun á leikskóla um 16,1% milli ára. Næst mest hækkar 8 tíma vistun með fæði í Garðabæ um 3% en hækkunina má rekja til 2,5% hækkunar á tímagjaldi og 5,6% hækkunar á fæðisgjaldi.
8 tímar með fæði lækka um 3,7% milli ára í Mosfellsbæ sem er tilkomið vegna 5% lækkunar á tímagjaldi. Leikskólagjöldin standa í stað millli ára í Vestmannaeyjum en 8 tíma vistun með fæði hækkar minnst í Hafnarfirði um 0,64% sem má rekja til 5% hækkunar á fæðisgjaldi.