Skip to main content

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur og eru stýrivextir því orðnir 3,75%.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur og eru stýrivextir því orðnir 3,75%. Stutt er síðan peningastefnunefnd lækkaði síðast vexti, en þann 22. maí voru stýrivextir lækkaðir um 0,5 prósentur. Stýrivextir hafa þannig lækkað um 0,75 prósentur frá undirritun kjarasamninga en meginmarkmið kjarasamninganna var að treysta lífskjör með hækkun launa, lækkun vaxta og aðgerðum stjórnvalda. 

Drífa Snædal, forseti ASÍ segir þetta jákvæðar fréttir sem staðfesti að markmið nýgerðra kjarasamninga um að bæta lífskjör á breiðum grunni hafi gengið eftir. Vaxtalækkun sé mikilvæg fyrir launafólk og efnahagslífið allt og sé enn eitt skrefið í átt að markmiðum samninganna að bæta lífskjör og afkomu fólks.

Með ákvörðun sinni er Seðlabankinn að bregðast við breyttum aðstæðum í efnahagslífi en umsvif í hagkerfinu hafa dregist saman undanfarin misseri. Þar munar mestu um breyttar horfur í útflutningsgreinum en Seðlabankinn spáði í síðustu peningamálum að útflutningur myndi dragast saman um 3,7% á þessu ári. Vöxtur einkaneyslunnar mælist þó enn nokkur en samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar jókst einkaneysla um 2,8% milli ára á fyrsta ársfjórðungi. 

Ljóst er að efnahagsleg óvissa hefur aukist og vænta má þess að atvinnuleysi komi til með að aukast með haustinu. Seðlabankinn væntir þess þó að verðbólga sé búin að ná hámarki og komi til með að hjaðna á næstu misserum en tekur þó fram að lækkun gengis krónunnar geti sett strik í þann reikning. Núverandi spá Seðlabankans er þannig að verðbólga verði að jafnaði 3,2% á þessu ári en samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar mældist verðbólga 3,3% nú í júní.