Skip to main content

Vonir standa til að á þingi Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) verði samþykkt ný tilmæli sem unnið hefur verið að síðustu ár, tilmæli gegn ofbeldi og áreitni í vinnuumhverfinu. Þetta yrði fyrsti alþjóðsáttmáli sinnar tegundar og markar tímamót í alþjóðlegri baráttu gegn áreitni og ofbeldi.

Alþjóða vinnumálastofnunin (ILO) er 100 ára í ár, stærsta og elsta alþjóðastofnunin sem staðið hefur af sér tvær heimsstyrjaldir og töluvert til viðbótar. Hún er stofnuð á grunni þríhliða samstarfs: Stéttarfélaga, stjórnvalda og atvinnurekenda og í gegnum hana hafa verið samþykktir merkustu sáttmálar heims; svo sem bann við nauðungarvinnu, réttinn til þátttöku í stéttarfélögum, réttinn til verkfalla, bann við barnavinnu, bann við mismunum og svo mætti lengi telja. Stofnunin hefur einfaldlega sett viðmið um hvað séu réttar og sanngjarnar reglur á vinnumarkaði heimsins síðustu 100 árin.

Nú stendur yfir 108. þing ILO í Genf og þess má geta að í fyrsta sinn á Ísland fulltrúa í stjórn þessarar merku stofnunar, yfirlögfræðing ASÍ, Magnús Norðdahl. Auk hans situr Drífa Snædal, forseti ASÍ fyrstu daga þingsins og Guðbjörg Kristmundsdóttir formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis tekur þátt í Norrænum ILO skóla og situr þingið sem nemandi hans. Fulltrúar íslenskra atvinnurekenda og stjórnvalda eru einnig þátttakendur og félags- og barnamálaráðherra var viðstaddur setningu þingsins.

Vonir standa til að á þessu þingi verði fullgilt ný samþykkt sem unnið hefur verið að síðustu ár, samþykkt gegn ofbeldi og áreitni í vinnuumhverfinu. Þetta yrði fyrsti alþjóðsáttmáli sinnar tegundar og markar tímamót í alþjóðlegri baráttu gegn áreitni og ofbeldi. Hvort tekst að klára samþykktina kemur í ljós þann 21. júní en þessar tvær vikur á þinginu verða nýttar til að klára viðræður um orðalag og efni.

Ekki eru allir sammála um hvar ábyrgðin á að koma í veg fyrir ofbeldi og áreitni liggur, né hvaða hópar séu sérstaklega viðkvæmir á vinnumarkaði. Allir lýsa sig samt reiðubúna til að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að samþykktin verði að veruleika en svo á eftir að koma í ljós hvaða innistæða er fyrir þeim yfirlýsingum. Það eru því spennandi dagar framundan en á fyrsta nefndarfundinum vitnuðu fjöldi samtaka um ofbeldi á vinnumarkaði. Sérstaklega voru átakanlegar frásagnir kvenna sem sinna heimilisstörfum á Vesturlöndum, kvenna sem vinna við götusölu í Afríku og ruslflokkun í Suður-Ameríku. Konur sem eru á jaðrinum á vinnumarkaðnum og ofurseldar atvinnurekendum, viðskiptavinum, stjórnvöldum og í sumum tilvikum lögreglunni. Allar #metoo sögurnar sem við höfum heyrt síðustu ár bera svo vott um að ástandið er grafalvarlegt um heim allann.

Ísland hefur ekki verið neitt sérstaklega duglegt við að fullgilda sáttmála og samþykktir ILO, að undanskildum grundvallarsáttmálunum. Betur má ef duga skal. Alþýðusamband Íslands mun leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að þessi samþykkt, ef hún verður að veruleika, verði fullgilt á Íslandi enda í samræmi við stefnu stéttarfélaganna, samtaka atvinnurekenda og stjórnvalda.