Skip to main content

10-11 er dýrasta verslunin samkvæmt verðkönnun á matvöru sem verðlagseftirlit ASÍ gerði 3. júní sl. Super 1 skipar sér í hóp lágvöruverðsverslana með verð sem eru í mörgum tilfellum svipuð og í Bónus og Krónunni en hærri í ákveðnum tilvikum.

10-11 er dýrasta verslunin samkvæmt verðkönnun á matvöru sem verðlagseftirlit ASÍ gerði 3. júní sl. Samkaup strax og Krambúðin eru næst dýrastar af þeim ellefu verslunum sem verð var kannað hjá. Super 1 skipar sér í hóp lágvöruverðsverslana með verð sem eru í mörgum tilfellum svipuð og í Bónus og Krónunni en hærri í ákveðnum tilvikum.
Í 62 tilfellum af 106 var yfir 81% munur á hæsta og lægsta verði en í 45 af 105 tilfellum var yfir 100% verðmunur. Hæsta verðið var oftast í 10-11 en það lægsta oftast í Bónus.
Iceland og Hagkaup eru dýrustu verslanirnar að minni hverfisverslunum undanskildum (10-11, Samkaup strax og Krambúðinni) en Iceland er aðeins oftar með hærri verð en Hagkaup í þessari könnun.

2 lítra kók á 649 kr.
Lítri af nýmjólk eða léttmjólk frá MS á 299 kr., French Roast kaffi frá Te og Kaffi á 1.799 kr., Lífskorn brauð frá Myllunni á 729 kr., kassi af Hrauni (200 gr.) á 599 kr., 649 kr. fyrir tveggja lítra Coca Cola og 1.299 kr. fyrir 10 stk pylsupakka frá SS eru dæmi um verð í 10-11 sem var oftast með hæstu verðin í þessari könnun.

Til samanburðar kostar líter af nýmjólk 169 kr. í Hagkaupum og Iceland þar sem hún er næst dýrust og 152 kr. í Bónus þar sem mjólkin er ódýrust. French Roast kaffið kostar 1.379 kr. í Krambúðinni þar sem það er næst dýrast og 975 kr. í Bónus þar sem það er ódýrast. Lífskorn brauð er ódýrast í Bónus á 398 kr. en næst dýrast í Samkaup strax á 549 kr.

Kassi af Hrauni er næst dýrastur í Samkaupum strax á 399 kr. en ódýrastur í Bónus á 225 kr. Þá kosta tveir lítrar af Coca cola 229 kr. í Nettó þar sem verðið er lægst, 429 kr. í Samkaupum strax sem er næst hæsta verðið en 649 kr. í 10-11 þar sem verðið er hæst. SS pylsur, 10 stk. Eru ódýrastar í Bónus 787 kr., næst dýrastar í Samkaupum-strax 989 kr. en lang dýrastar í 10-11 eða 1.299 kr.

Á mynd á heimasíðu ASÍ má sjá litla vörukörfu sem sýnir verðmun á fleiri vörum á milli verslana en vörukörfuna í heild sinni má nálgast hér.

Super 1 kemur sér fyrir í flokki lágvöruverðsverslana
Verðlagið í 10-11 er langt hæst í könnuninni eins og áður segir og munar töluverðu á þeirri verslun og Samkaup strax sem er næst hæst. Verðlagið í Samkaup strax er þó einnig gegnum gangandi mikið hærra en í meirihluta verslananna í könnuninni þrátt fyrir að vera töluvert lægra en í 10-11. Þessar þrjár búðir, 10-11, Samkaup strax og Krambúðin skera sig frá restinni af verslununum og eru almennt minni og með minna vöruúrval.

Verðlag í verslunum Iceland svipar til Krambúðarinnarog sama má segja um Hagkaup. Töluverður vegur er síðan frá verðlagi í verslunum Hagkaups og Iceland að verðlagi í hinum verslununum, Kjörbúðinni, Fjarðarkaupum, Super 1, Nettó, Krónunni og Bónus.

Bónus og Krónan eru að jafnaði nálægt hvor annarri í verðlagi og eru yfirleitt ódýrustu verslanirnar en þar á eftir koma Nettó og Super-1. Þar á eftir koma Fjarðarkaup og Kjörbúðin sem eru þá að jafnaði aðeins dýrari en ódýrustu lágvöruverðsverslanirnar en ódýrari en Hagkaup og Iceland.

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 106 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd mánudaginn 3. júní 2019 á sama tíma í öllum verslunum en þær eru: Bónus Skeifunni, Nettó Mjódd, Super 1 Hallveigarstíg, Krónunni Lindum, Hagkaup í Skeifunni, Iceland í Glæsibæ, Fjarðarkaupum, Costco og Kjörbúðinni Garði. Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.