Skip to main content

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega þeirri stefnu sem endurspeglast með skýrum hætti í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega þeirri stefnu sem endurspeglast með skýrum hætti í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019. ASÍ hefur á undanförnum árum ítrekað varað við þeirri stefnu í opinberum fjármálum sem byggir á því að veikja tekjustofna með skattalækkunum til hinna tekjuhæstu. Sú leið er óásættanleg.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að strax verði ráðist í að treysta undirstöður velferðar og félagslegs stöðugleika. Þar ríkir bráðavandi.

Fyrirséð er að núverandi stefna stjórnvalda er ósjálfbær þegar hægja tekur á vexti í efnahagslífinu. Alþýðusamband Íslands mun aldrei sætta sig við að launafólki, öldruðum og öryrkjum verði gert að axla byrðarnar af óábyrgri ríkisfjármálastefnu. Það er óásættanlegt að stjórnvöld mæti ekki kröfum verkalýðshreyfingarinnar og nýti tækifærið til að ráðast í þau miklu verkefni sem bíða; að stórbæta lífskjör, styrkja velferðina og tryggja almenningi gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum. 

Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld sýni í verki vilja sinn til að jafna kjörin og byggja í haginn til framtíðar og komi strax með aðgerðir sem mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.