Skip to main content

Drífa Snædal, nýkjörin forseti Alþýðusambands Íslands, fer í pistli sínum yfir þau mál sem unnið var að í síðustu viku.

Kæru félagar,
Við hófum vikuna á vinnufundi um húsnæðis- og skattamál enda eru það þeir málaflokkar sem settir verða á oddinn af hálfu ASÍ næstu vikur og þau mál sem skipta afkomu fólks hvað mestu og brýnast er að bæta úr í okkar samfélagi. Húsnæðismálin voru líka rædd á samráðsfundi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á þriðjudaginn og er það vonandi sameiginlegur skilningur allra að ekki verður gengið frá kjarasamningum nema húsnæðismálin verði tekin föstum tökum. Það vantar 8.000 íbúðir núna og skipulag til framtíðar í þessum málum þannig að markaðsaðilar geti ekki stýrt framboði hverju sinni heldur sé tekið mið af raunverulegri þörf fólks sem vantar húsnæði. Markaðslögmálin munu aldrei leysa húsnæðisvandann heldur er það félagslegt mál að fólk hafi húsnæði á viðráðanlegu verði. Auk þess er afar brýnt að tryggja hagsmuni leigjenda þannig að almenningur sé ekki ofurseldur óöruggum leigumarkaði og leigusölum sem hækka leiguna eftir hentisemi.

Á miðstjórnarfundi á miðvikudaginn var ákveðið að stokka nefndir ASÍ upp og var til að mynda stofnuð sérstök húsnæðisnefnd sem mun vinna náið með okkar helstu sérfræðingum við að útfæra hugmyndir til skamms- og langs tíma. Ég geri mér vonir um að við fáum góðan hljómgrunn meðal stjórnmálamanna og við áttum okkur öll á að hér þarf róttæka nálgun til að vinna úr neyðarástandi.

Við sem skipum nýkjörna forystu ASÍ látum ekkert tækifæri ónotað til að tala máli launafólks og mættum við til dæmis á kvöldfund hjá Sjálfstæðisflokknum í Valhöll á miðvikudagskvöld til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Þá hitti ég og framkvæmdastjóri ASÍ formann Öryrkjabandalagsins á góðum fundi enda ljóst að hagsmunir okkar samtaka fara vel saman og við getum náð virkilega góðum slagkrafti með sameinuðum kröftum.
Við erum komin á fullt eftir þing ASÍ og vonandi skýrist það fljótlega hvaða umboð landssambönd innan ASÍ veita heildarsamtökunum og hvaða mál við fáum til úrlausnar í tengslum við kjarasamningana.

Ég óska ykkur góðrar helgar,
Drífa