Skip to main content

#metoo – hvað eru stéttarfélögin að gera?

„Af hverju er verkalýðshreyfingin að velta sér upp úr #metoo umræðunni?“ spurði Drífa Snædal, framkvæmdarstjóri Starfsgreinasambands Íslands, á málþingi sem haldið var af ASÍ-UNG í Stúdentakjallaranum síðastliðinn þriðjudag.

„Af hverju er verkalýðshreyfingin að velta sér upp úr #metoo umræðunni?“ spurði Drífa Snædal, framkvæmdarstjóri Starfsgreinasambands Íslands, á málþingi sem haldið var af ASÍ-UNG í Stúdentakjallaranum síðastliðinn þriðjudag.

Yfirskrift málþingsins var #metoo – hvað eru stéttarfélögin að gera? Markmiðið var að ræða aðgerðir stéttarfélaganna í kringum þá miklu umræðu sem skapast hefur um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreiti á vinnumarkaði í kjölfar #metoo byltingarinnar. Í pallborði voru María Rut Kristinsdóttir, fv. formaður samráðshóps ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og fv. talskona druslugöngunnar, Drífa Snædal, framkvæmdarstjóri SGS, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Eiríkur Þór Theódórsson, varaformaður ASÍ-UNG og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur hjá BSRB. Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, sá um fundarstjórn.

Drífa benti á að #metoo varpar ljósi á svo margt. Öryggi á vinnustöðum snýr að fleiru en bara hlíðarfatnaði og öryggisglerjum, það á líka að snúa að andlegu öryggi fólks og vellíðan. Þá sýnir þetta svo vel hvaða hópar eru í viðkvæmri stöðu og hvernig völd og valdaleysi hefur áhrif á öryggi. Hún þakkaði þessari umræðu það að konur sem hafa ekki áður haft rödd í samfélaginu hafa fundið kjark til að stíga fram.

María Rut benti á að þögnin hefur alltaf verið besti vinur gerandans og að sú hegðun, að auðvelt hefur verið að áreita á vinnumarkaði í skjóli valdsins, hafi verið við lýði of lengi. Hún vonast til þess að þessi opna umræða sem hefur verið upp á síðkastið hafi þau áhrif að viðbragðstíminn frá því ofbeldi á sér stað og þar til það er stoppað og sagt frá því styttist. „Ég vona að með þessari umræðu náum við einhverjum alvöru árangri. Það að tala um þessi mál strax hefur auðvitað forvarnargildi. Fólk er óöruggt í þessum samskiptum núna og það er bara eðlilegt. Spurningar eins og „má ég knúsa þig núna“ poppa upp núna í allri umræðu. En ég trúi því að innst inni gerir fólk sér grein fyrir hvar mörkin liggja. Við þurfum bara að halda þessu samtali áfram, vera þolinmóð og svara öllum spurningum, sama hversu heimskulegar okkur þykir þær vera,“ sagði hún.

Ragnar Þór sagði VR vera í mikilli innri vinnu með þessi mál og aðgerðaráætlanir koma frá þeim fljótlega. Hann sagði VR hafa unnið ötullega að jafnréttismálum og þar ætluðu þau ekkert að slá slöku við á næstunni.

Sonja Ýr sagði að þær sögur sem hafa komið upp á yfirborðið sýna að það þarf að grípa til aðgerða strax. „Okkar hlutverk eru mörg. Við þurfum að gæta hagsmuna okkar félagsfólks, vera leiðbeinandi í að fyrirbyggja vandann og ef að atvik koma upp á fólk að geta leitað til okkar. Einnig þurfum við að hvetja atvinnurekendur til að breyta vinnumenningunni ef þarf, eiga gott samband við trúnaðarmenn á vinnustöðum og síðast en ekki síst að skoða okkur sjálf og starfið í hreyfingunni. Þar þarf að stuðla að aukinni fræðslu til aðildarfélaga og við erum þegar byrjuð á því,“ benti hún á.

Margar góðar spurningar komu úr sal og ábendingar um þörf á aukinni fræðslu á vinnustaði. Fólk var almennt sammála um að þetta er menning sem þarf að breyta og nú eru allir að leita lausna til að geta tekið þátt í þeim breytingum. Í svörum kom fram að fyrirbyggjandi aðgerðir séu nauðsynleg næstu skref. Samskipti eru ákveðinn dans og ef báðir aðilar eru ekki að taka þátt í honum þá er verið að fara yfir mörk.

Eiríkur Þór sagðist vonast til að umræðurnar haldi áfram. Hann kom inn á að það getur verið flókið að vinna á karllægum vinnustöðum þar sem niðrandi umræður um konur hafa viðhafst lengi. María tók þá orðið „nú er komin tími til að við hættum að vera meðvirk. Við megum ekki sofna á verðinum. Það þarf hugrekki til að segja stopp! Þetta byggir allt á samstöðu og við höfum hana núna“.