Skip to main content

Verðkönnun ASÍ á jólamat sýnir að neytendur geta haft talsvert upp úr því að versla jólamatinn þar sem hann er ódýrastur en að meðlatali er um 40% verðmunur er á jólamatnum á milli verslana.

Verðsamanburður í töflu.

Mestur verðmunur á grænmeti og ávöxtum
Í könnuninni sem var framkvæmd þann 13. desember 2017 kemur fram að Bónus er í flestum tilfellum með lægsta verðið eða í 54% tilfella en næst á eftir kemur Krónan sem er með lægsta verðið í 15% tilfella. Hagkaup er oftast með hæsta verðið eða í 36% tilfella en þar á eftir kemur Iceland með hæsta verðið í 29% tilfella.

Grænmeti og ávextir er sá vöruflokkur sem er með mesta verðmuninn en meðalverðmunurinn milli búða er 67%. Þar er verðmunur á hindberjum mestur eða 148% en dýrasta kílóverðið var 5327 kr. hjá Hagkaup en ódýrasta hjá Costco eða 2144 kr. Mikill verðmunur er á vínberjum milli búða eða allt að 102% en þau eru ódýrust hjá Fjarðarkaupum á 588 kr. kílóið en dýrust hjá Víði á 1185 kr. kílóið. Svipað er uppi á teningnum með bláber en þar er verðmunurinn ívið meiri eða 107% en ódýrust eru bláberin hjá Hagkaupum (1904 kr. kílóið) en dýrust hjá Víði (3950 kr. kílóið). Bestu kaupin á Beauwais rauðkáli í krukku má gera í Bónus þar sem krukkan kostar 195 kr. en hún er 104% dýari hjá Víði eða á 398 kr. 

Mikill munur á kjöti og konfekti
Af kjötvörum var mesti verðmunurinn á hálfum Íslands lambahrygg með beini en hann er 48% ódýrari í Víði en í Hagkaup eða á 1885 kr. hjá Víði en 2799 kr. hjá Hagkaup. Þá var einnig mikill verðmunur á SS birkireyktu hangikjöti (úrbeinuðu) eða 47%. Bónus var með lægsta verðið eða 3398 kr. kg en Kjörbúðin var með hæsta verðið eða 4998 kr. kg.

Töluverður munur er á konfekti og sælgæti milli búða en 1kg kassi af Lindu konfekti er 58% ódýrari hjá  Bónus en hann er hjá Iceland eða á 1898 kr. í stað 2999 kr. Einnig er mikill munur Machintosh Quality Street dósum, 1,2 kg og 2 kg eða 36% og 38% en í báðum tilfellum er Bónus með lægsta verðið en Hagkaup hæsta.

Verðlagning á brauði, kexi og morgunkorni er einnig æði misjöfn eftir búðum en sem dæmi má nefna að 96% verðmunur er á Heimilisbrauði en ódýrast er það hjá Bónus á 279 kr. en dýrast hjá Víði á 548 kr. 54% munur er á súkkulaðibitakökum frá Kexsmiðjuni en þar er Bónus með lægsta verðið eða 598 kr. á meðan kökurnar kosta 918 kr. hjá Fjarðarkaupum. Hagkaup er með hæsta verðið á öðrum smákökum frá Kexsmiðjunni en þar munar 50%. Pilsnerunnendur geta glaðst yfir verðlaginu í Bónus en þar fæst ½ l dós á 85 kr. en í Iceland er Pilsnerdósin 79% dýrari og kostar 179 kr. Hins vegar var 2l appelsín ódýrast hjá Iceland á 229 kr. en 42% dýrara í Víði á 348. kr.

Vöruúrval
Fjarðarkaup trónir á toppnum með mesta vöruúrvalið en þar mátti finna 89 af 90 vörum sem skoðaðar voru en Hagkaup fylgir fast á eftir með 87 vörur af 90. Costco var með minnsta úrvalið eða einungis 7 vörur en næstminnsta úrvalið mátti finna hjá Víði eða 50 vörur af 90. Taka skal fram að vörurnar sem könnunin nær til eru oftar en ekki íslenskar og markaðssettar sérstaklega fyrir jólin hér á landi og er úrvalið í sumum búðum til marks um það.

Í könnuninni var hilluverð á 90 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef að afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru Bónus Holtagörðum, Nettó Granda, Krónan Hafnafirði, Hagkaup Garðabæ, Iceland Vesturbergi, Fjarðarkaup, Víðir Garðabæ, Costco og Kjörbúðin Neskaupsstað. Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.